Hvorki spilar né syngur á fyrstu sólóplötunni

Björn Hafþór Guðmundsson á Stöðvarfirði vinnur nú að útgáfu sinnar fyrstu hljómplötu, kominn vel yfir sjötugt. Björn Hafþór hefur til þessa verið kunnari fyrir kveðskap sinn en kveðst gjarnan hafa raulað fyrir munni sér laglínur við textana. Þeir mynda grunninn að væntanlegri hljómplötu.

„Sumir eru hvattir til þess að fara í forsetaframboð. Ég var hvattur til að gefa út disk af vinum sem ég tek mark á,“ segir Björn Hafþór um plötuna „Við skulum ekki hafa hátt“ sem væntanleg er í haust.

Þar verður að finna 10-12 lög samin af Birni Hafþóri, flest á síðustu 20-25 árum. „Ég hef oft raulað með mér lagstúfa við textana mína og síðar spilað þau á gítar.“ Tveir textar eru eftir aðra, „Bar-lómur“ eftir Stefán Bragason og svo titillagið sem Hrönn Jónsdóttir á heiðurinn af. Þau lög eru hins vegar eftir Björn.

Nokkur lög hafa áður komið út eftir hann. Tvö voru á plötu Danshljómsveitar Friðjóns, „Austfirskir staksteinar 3“ auk þess sem Björn Hafþór hefur nokkrum sinnum reynt fyrir sér í lagakeppnum. Lagið „Hólahopp“ komst í úrslit jólalagakeppni og var síðan gefið út af hljómsveit Friðjóns.

Austfirskir söngvarar og hljóðfæraleikarar


Vinna við plötuna fór af stað fyrir alvöru í for eftir að samstarf komst á milli Björns Hafþórs og Daníels Arasonar, tónlistarmanns úr Neskaupstað. Daníel býr í Kópavogi og hefur þar fengið til sín fleiri tónlistarmenn, suma með austfirskar rætur, sem flytja tónlistina.

„Ég nota austfirska barka, það er söngvara með austfirskan bakgrunn. Guðmundur R. mun syngja sem og Friðjón (Jóhannsson) og Garðar Harðar. Ég geri ekkert sjálfur, hvorki spila né syng, þannig fólk þarf ekki að óttast það heldur fékk í það alvöru fólk. Ég verð eins og leikstjórinn Alfred Hitchcock, lítil dularfull persóna hliðar í verkinu,“ segir Björn Hafþór.

Vinnsla plötunnar er því langt komin og stefnt á útgáfu í september. Á hagyrðingakvöldi á Borgarfirði síðasta föstudagskvöld var upptakan af laginu „Bar-lómur“ í fyrsta sinn flutt opinberlega. „Ef við ættum að reikna framvindu plötunnar út þá getum við sagt að 60% laganna séu nærri tilbúin.“

Fylgir plötunni eftir með tónleikum


Til að fjármagna útgáfuna setti Björn Hafþór af stað söfnun á hópfjármögnunarsíðunni Karolina Fund. Búið er að ná 50% takmarksins, en vika er eftir af söfnuninni. „Ég heyri að sumir veigra sér við að fara í gegnum svona síður. Þá er hægt að hafa samband við mig beint og millifæra á mig. Ég legg þá inn á söfnunina því reglurnar eru þær að ná þurfi settu takmarki, annars þurrkast öll loforð út,“ segir hann.

Geisladiskurinn er meðal þess sem er í boði fyrir veittan stuðning. Björn Hafþór segir að töluvert hafi verið lagt úr hönnun umslagsins til að gera gripinn sem eigulegastan. Vínylplötugerð er til skoðunar en tónlistin fer líka inn á helstu streymisveitur.

Miðar á útgáfutónleika er annað sem er í boði. Björn Hafþór reiknar með að halda þá á Stöðvarfirði með haustinu. „Nema salan verði slík að ég þurfi að færa mig í Laugardalshöllina. Það skýrist þegar líður á haustið.“

Björn Hafþór með bassa sem hann smíðaði ásamt Hlyni Halldórssyni á Miðhúsum.


 
 

 

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar