![](/images/stories/news/umhverfi/baejarskrifstofur_egilsstodum_3.jpg)
Íbúafundi frestað út af Evrópusöngvakeppninni
Ákveðið hefur verið að fresta íbúafundi um fjármál sveitarfélagsins Fljótsdalshéraðs sem halda átti í kvöld. Íbúafundurinn rekst á við fyrri forkeppni Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva.
„Það er meðal annars vegna þess,“ segir Björn Ingimarsson, bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs í svari við fyrirspurn Austurfréttar um hvort söngkeppnin hefði haft áhrif á frestun fundarins.
Fundurinn verður þess í stað í Egilsstaðaskóla þriðjudaginn 17. maí klukkan 20:00. Þar verður farið yfir ársreikning Fljótsdalshéraðs vegna ársins 2015, auk þess sem framundan er á yfirstandandi ári og næstu árum, varðandi rekstur og framkvæmdir sveitarfélagsins.
Fleira er í gangi á Héraði í kvöld þar sem Huginn og Höttur mætast í bikarkeppni karla í knattspyrnu á Fellavelli klukkan 19:00. Á sama tíma tekur Fjarðabyggð á móti Sindra í bikarnum á Norðfjarðarvelli.