Idol vegferð Símonar Grétars lokið
Símon Grétar Björgvinsson frá Vopnafirði komst ekki áfram í úrslit í Idol-stjörnuleit Stöðvar 2. Hann keppti í undanúrslitum keppninnar síðastliðinn föstudag þar sem hann flutti tvö lög. Eftir símakosninguna lenti hann í neðstu tveimur sætunum ásamt öðrum keppenda og var sendur heim.
Keppendur áttu að flytja eitt íslenskt lag og eitt lag sem kom út fyrir aldamótin. Símon Grétar flutti lagið “Vangaveltur” eftir Herra Hnetusmjör og lagið “Under the Bridge” eftir Red Hot Chili Peppers.
Fyrir þáttinn var óljóst hve margir keppendur myndu komast áfram í úrslitin en tilkynnt var um að tveir keppendur yrðu sendir heim í þættinum. Eftir símakosninguna varð ljóst að keppendurnir Bía og Símon Grétar höfðu lent í tveimur neðstu sætunum og komust því ekki áfram í úrslitin.
Úrslitaþáttur keppninnar verður næsta föstudagskvöld þar sem Kjalar og Saga Matthildur mætast í einvígi. Þá verður ljóst hver næsta Idol-stjarna Íslands verður.
Dómarar keppninnar voru handvissir um það að þjóðin ætti eftir að sjá meira af Símoni Grétari og hvöttu hann til þess að halda áfram á þessari braut.