![](/images/stories/news/2016/innras_ur_austri/innras_ur_austri_0176_web.jpg)
Innrás úr austri í Hörpu – Myndir
Austfirskir listamenn gerðu innrás í Reykjavík með tónleikum í Hörpu um síðustu helgi sem um eitt hundrað gestir, margir með taugar austur, sóttu.
Kvöldið byrjaði á Blind, tónleikum þar sem bundið er fyrir augu áheyrenda. Berglind Ósk Agnarsdóttir, sagnaþula frá Fáskrúðsfirði, fór með dæmisögur utan úr Evrópu fyrir gesti meðan Jón Hilmar Kárason lék undir á gítar í myrkvuðum salnum en Guðjón Birgir Jóhannsson hannaði hljóðmyndina.
Jón Hilmar hélt áfram og spilaði með gítarrokksveitinni Dútli ásamt Þorláki Ágústssyni og Orra Smárasyni fyrir hlé.
Rokkararnir í Vaxi hófu leikinn eftir hlé en síðust á svið var Fura, hljómsveit Bjartar Sigfinnsdóttur frá Seyðisfirði. Fura starfar í Danmörku og hélt afar fína tónleika í Hörpunni. Hljóðinu í salnum stjórnaði Hallur Jónsson, gjarnan kenndur við Bloodgroup. Þá skreytti danskur videolistamaður tjald fyrir ofan sviðið með myndskeiðum í takt við tónlistina.
Um 100 gestir voru í Norðurljósasal Hörpu, margir Austfirðingar en einnig erlendir ferðamenn sem vildu láta koma sér á óvart. Ljósmyndari Austurfréttar var einnig á staðnum.