Torfkofarnir eru menningarverðmæti

Óvíða en að Hjarðarhaga á Jökuldal má sjá jafn mörg gömul mannvirki sem gerð hafa verið upp að hluta eða í heild. Þorvaldur P. Hjarðar er maðurinn að baki uppbyggingunni en hann segir að aðeins með þessum hætti sé hægt að viðhalda og vernda merkum hluta íslenskrar sögu.

Í byrjun þessarar aldar var talið að aðeins 3-4 einstaklingar byggju yfir þeirri kunnáttu sem þarf til að hlaða hús úr torfi og steinum. Það hefur breyst og sífellt fleira fólk leggur sitt af mörkum til að vernda torfhús og heiðarbýli, arfleifð sem á margan hátt er einstök á heimsvísu.

„Það er alveg augljóst í mínum augum að það hefur orðið viðhorfsbreyting í þjóðfélaginu hvað varðar arf okkar allra. Ég sjálfur er farinn að fá til mín á námskeið töluvert af ungu fólki sem sýnir torfkofagerð mikinn áhuga sem þýðir að þetta er ekki lengur eitthvað skringilegt áhugamál eldri sérvitringa á borð við mig. Það er afskaplega jákvæð þróun því þetta er arfurinn okkar og menning og velflestar þjóðir heims leitast við að halda slíku hátt á lofti. Það þurfum við líka að gera.“

Íbúar heiðarbýlanna nutu ekki sannmælis hjá Laxness


Þorvaldur er fæddur og uppalinn að Hjarðarhaga en lagði snemma á sig ferðalag suður til Reykjavíkur til að nema vélfræði enda með mikinn vélaáhuga alla tíð. Hann starfaði lengi á sjónum en lauk síðan starfsævinni hjá Vinnueftirlitinu á Austurlandi.

Þorvaldur hefur lengi verið formaður Ferðafélags Fljótsdalshéraðs, sem á sinn þátt í að varðveita sögu heiðarbýlanna, en Þorvaldur hefur verið leiðsögumaður í ferðum á milli þeirra. Hann segir miður að velflestir taki orð Halldórs Laxness í bók hans Sjálfstætt fólk um stórskrýtna rugludalla sem bjuggu sér heimili í heiðarbýlunum sem heilögum sannleik.

„Það þarf ekki að fletta lengi í sögnum til að vita að margt það fólk sem kaus heiðarbýli sem sitt heimili var af öllum toga eins og annars staðar gerist. Fjölmargar sagnir eru af fólki frá þeim heimilum sem sóttu sér góða menntun og komu sér vel fyrir í lífinu.

Sögu þess fólks kynnist maður aðeins með því að læra um býlin öll hér á Austurlandi og það er einmitt tilgangurinn með þessum dagsferðum mínum gegnum Ferðafélagið að upplýsa um að fólkið á heiðarbýlunum var ekki allt stórskrýtið og undarlegt eins og Halldór skrifaði um dvöl sína í Sænautaselinu.

Skrif Halldórs á sínum tíma um gistingu meðal fólksins í Sænautaseli gefur ekki rétta mynd af því fólki sem bjó á þessum stöðum. Í þessum heiðarbýlum bjó margt vel menntað fólk. Þarna voru búfræðingar og kennaramenntað fólk á borð við Björn Jóhannsson sem síðar varð skólastjóri á Vopnafirði. Anna, kona hans, var menntuð ljósmóðir. Kona að nafni Dórótea var fyrsta konan á Austurlandi sem átti prjónavél og það árið 1860. Þannig að á þessum býlum bjó bara harðduglegt og venjulegt fólk þó skrif Halldórs hafi dregið upp aðra og ólíkari mynd.“

Minjar í Hjarðarhaga


Jörðin Hjarðarhagi er æði einstök í ýmsu tilliti. Þar er gnótt mannvirkja frá gamalli tíð sem enn er vel viðhaldið eða hafa verið endurbyggð að hluta eða öllu leyti. Samkvæmt gögnum á Héraði um merka staði og söguminjar eru allnokkrir staðir við bæinn sem farið hafa í efsta verndunarflokk sem merkar minjar.

Meðal annars rúmlega 3 km langur grjótgarður uppi í fjallinu ofan bæjarins, gömul kornmylla og fjárhús og hlaða úr torfi sem standa niðri við Hringveginn. Rétt við bæinn eru tvö völvuleiði og í sérkennilegum og áberandi píramídalöguðum hól í bæjarlandinu gerir álfkona ein sig heimakomna að því er sagnir herma.

„Þetta vekur mikla athygli sannarlega en fyrst og fremst meðal erlendra ferðamanna. Ég myndi skjóta á um eða yfir 90% þeirra sem hér stoppa og forvitnast séu útlendingar og þeir margir mjög áhugasamir. Hér meira að segja komið svokallaðir áhrifavaldar og tekið af sér myndir inni í svefnpoka að þykjast fara að sofa. Þannig að það er allur aldurshópur sem finnst húsin merkileg. Við Íslendingar erum þó smám saman að vakna upp við hversu merkilegur slíkur arfur er svo þróunin er á réttri leið.“

Minjastofnun reynir sitt besta


Þó Minjastofnun, sem á að sjá um vernd og viðhald menningar- og söguminja þjóðarinnar, hafi vissulega lagst á árarnar með eitt og annað í Hjarðarhaga segir Þorvaldur að stofnunin sé fjársvelt og hafi verið lengi og geti ekki sinnt öllu því sem henni beri skylda til.

„Það kann að hljóma undarlega en til dæmis kostnaðurinn við að endurbyggja torfhús eins og hér eru skagar langleiðina í að byggja nýja íbúð. Það er ýmis sérfræðikostnaður í upphafi og svo er nokkuð erfitt og tímafrekt að vinna verkið sjálft. Til að endurbyggja torfhúsið hér sem er næst þjóðveginum vorum við níu talsins á sínum tíma og það tók þrjár til fjórar vikur að klára það. Ég hef því ágætan skilning á hve erfitt er fyrir stofnunina að viðhalda eða endurreisa ýmsar merkilegar minjar sem varðveita þarf. Til þess eru einfaldlega ekki nógir fjármunir.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar