„Íslensk orð eru almennt frekar erfið“

Filippseyingurinn Michael Rizon segist hafa flust til Djúpavogs til að búa fjölskyldu sinni betri framtíð. Hann segist kunna þar vel við sig í fögru umhverfi og jákvæðu mannlífi þótt hann sakni fjölskyldu sinnar.

Michael er 29 ára gamall og kom einn úr fjölskyldunni til Djúpavogs en í heimalandinu eru kona hans og tvö börn.

„Ástæðan er að ég vildi búa börnunum mínum og fjölskyldunni betri framtíð. Þótt mér þyki erfitt að vera fjarri þeim líður mér af ýmsum ástæðum vel hér á Djúpavogi.

Náttúran er svo öðruvísi, landslagið svo fallegt og fólkið afar vingjarnlegt, einkum í Búlandstindi þar sem ég vinn. Þau eru dásamleg við okkur og svarið við bænum okkar,“ segir Michael.

Hann er alinn upp í litlum strandbæ á Filippseyjum, yngstur fimm bræðra. Hann segir landslagið þar einkar fallegt en aðstæður fjölskyldunnar frekar frumstæðar.

„Lífsviðurværi okkar kom af fyrirtæki fjölskyldunnar sem framleiddi og seldi handverk sem fór um allan heim. Við fjölskyldan hjálpuðumst að við allt, hvort sem það voru heimilisstörfin eða vinnan í fyrirtækinu.

Ég er svo heppinn að vera yngstur sem veitti mér frelsi til að gera það sem ég vildi þegar ég var lítill. Ég spilaði körfubolta, synti með vinum og frændfólki og veiddi fisk með spjóti. Við áttum litla hlöðu og þar voru hænsn, bardagahanar, kýr, geitur og svín.“

Michael gekk í háskóla og lauk námi í sjávarleiðsögn með námi. Hann nýtti tímann til að taka þátt í ýmiss konar íþróttum sem voru í boði í skólanum og keppti fyrir hans hönd í borgarleikunum í Ceba í sundi og klappstýrudansi.

Líkt og margir íbúar landsins af erlendum uppruna vefst íslenskan fyrir honum en hana hefur hann lært í vetur. „Íslensk orð eru almennt frekar erfið. Ég reyni þó að tala íslensku, einkum við eldra fólkið á Djúpavogi. Vald á tungumálinu er eina leiðin til að verða virkur í samfélaginu. Ég þarf að nota meira það sem ég læri í íslenskukennslunni hjá Berglindi, hún er frábær kennari og því vil ég senda henni sérstakar þakkir.“

Útgáfa Austurgluggans að þessu sinni er samstarfsverkefni Austurbrúar og Útgáfufélags Austurlands og blaðið er tileinkað fólki er erlendum uppruna á Austurlandi. Það er gefið út á ensku og þannig vonumst við til að ná til flestra lesenda sem ekki hafa íslensku að móðurmáli. Íslenskar útgáfur greinanna birtast á Austurfrétt á næstu dögum. Viðtalið við Michael birtist upphaflega í síðasta tölublaði Bóndavörðunnar, fréttablaðs Djúpavogshrepps.


Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.