Jafnað á elleftu stundu
Víkingur jafnaði leik sinn gegn Fjarðabyggð í 1. deild karla í knattspyrnu tvívegis á elleftu stundu í dag.
Vilberg Marinó Jónasson kom Fjarðabyggð yfir á fimmtu mínútu með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var á varnarmann Víkinga fyrir hendi. Víkingar réðu heldur ferðinni án þess að skapa sér teljandi færi, utan skots í þverslá úr aukaspyrnu. Í uppbótartíma hálfleiksins mistókst Fjarðabyggð að hreinsa fyrirgjöf frá og sóknarmaður Víkinga kom boltanum í netið.
Seinni hálfleikur var eins. Sveinbjörn Jónasson skoraði eftir átta mínútna leik. Víkingar freistuðu þess að jafna strax en Srdjan Rajkovic varði tvö dauðafæri þeirra. Undir leikslok fór Guðmundur Atli Steinþórsson illa með gott færi fyrir Fjarðabyggð. Hann slapp inn fyrir vörn Víkinga en sendi frekar en skjóta sjálfur. Markvörður Víkings náði sendingunni. Í uppbótartíma var dæmd vítaspyrna á Inga Þór Þorsteinsson fyrir að toga sóknarmann Víkinga niður. Þórhallur Hinriksson skoraði úr vítinu. Líkt og í fyrri hálfleik fékk Fjarðabyggð bara að taka miðjuna áður en flautað var af.
„Það skiptir ekki máli hvenær mörkin koma. Leikurinn er níutíu mínútur,“ sagði Magni Fannberg, þjálfari Fjarðabyggðar. „Við höfum spilað betur í seinustu leikjum en ekki fengið stig.“
Magni var í vikunni sagður næstur á óska úrvalsdeildarliðs HK sem rak þjálfara sinn. Hann vildi ekkert tjá sig um þær sögusagnir í samtali við Austurgluggann í dag.
Í 2. deild karla tapaði Höttur 3-1 fyrir ÍR í Breiðholti. Uros Hojan skoraði mark Hattar. Sigurveig Sædís Jóhannesdóttir skoraði mark Fjarðabyggðar/Leiknis sem tapaði 1-3 fyrir Tindastóli í 1. deild kvenna á Fáskrúðsfirði.