Kærleikskúlan og jólaóróinn í sölu um helgina

Félagar í Soroptimistaklúbbu Austurlands hefja um helgina sölu á kærleikskúlum og jólaóróum frá Styrktarfélagi lamaðra og fatlaðra en salan er árlegt fjáröflunarverkefni.


Soroptimistaklúbbur Austurlands kemur nú að þessu verkefni í ellefta sinn og hafa Austfirðingar verið tryggir kaupendur. Klúbburinn fær 1000 krónur af andvirði hvers selds hlutar og er ágóðinn notaður í þágu fatlaðra barna og ungmenna á heimaslóðum.

Hann hefur til dæmis verið notaður til tækjakaupa fyrir sjúkraþjálfun og til kaupa á ýmiskonar hjálpartækjum fyrir einstaklinga. Einnig hefur sjóðurinn styrkt einstakling til þátttöku á vetrarólympíuleikum fatlaðra.

Síðast liðin ár hefur ágóðinn runnið til kaupa á lyftu í sundlaugina á Egilsstöðum. Lyftan er komin austur og er unnið er að uppsetningu hennar.

Gripir ársins

Kúlan í ár heitir Sýn og er eftir Sigurð Árna Sigurðsson. Kúlan hefur hvorki upphaf né endi og er táknmynd hringrásar lífsins og móður jarðar. Á endalausu yfirborði hennar eru þó tvær hliðar eins og á flestu, því inn í kúlunni er annað endalaust yfirborð. Tveir heimar – sá ytri og hinn innri.

Sigurður Árni gataði yfirborðið og segir að hugmynd verksins og kærleikur kúlunnar búi í gatinu. Í opinu er möguleiki að tengjast öðrum heimi, setja sig í spor annarra og öðlast víðara sjónarhorn – nýja sýn.

Pottaskefill er ellefti óróinn í jólasveinaseríu Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra. Í seríunni fara saman íslenskur menningararfur, íslensk hönnun og ritsnilld ásamt mikilsverðu málefni.

Signý Kolbeinsdóttir, vöruhönnuður og einn eigenda Tulipop, og Snæbjörn Ragnarsson, betur þekktur sem Bibbi í Skálmöld, túlka sveininn. Signý með glæsilegri hönnun og Bibbi með sinni einstöku ritsnilld.

Selt verður í verslunum og á mörkuðum á Egilsstöðum, Seyðisfirði og Fellabæ næstu þrjár helgar. Nánari upplýsingar má finna á www.saust.is

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar