Kaldar strendur - heitir straumar
Kaldar strendur - heitir straumar er nafn á samsýningu tólf listamanna frá Íslandi og Noregi. Sýningin var sett upp á þremur stöðum í Norður Noregi á síðastliðnu ári og verður opnuð í Sláturhúsinu á Egilsstöðum laugardaginn 17. janúar.
Hugmyndin að sýningunni kviknaði í samstarfi listamanna á vegum menningarráðanna á Austurlandi og í Vesterålen. Í nokkur ár hafa listamenn frá Austurlandi annars vegar og Vesterålen hins vegar skipst á að heimsækja hvern annan. Ferðalögin yfir hafið eru kveikjan að sýningunni sem listamennirnir eiga sjálfir frumkvæði að.
Listamennirnir sem sýna eru: Agnieszka Sosnowska, Svandís Egilsdóttir, Aino Grib, Oili Puolitaival, Ingrid Larssen, Ove Aalo, Íris Lind Sævarsdóttir, Ólöf Björk Bragadóttir, Myriam Borst, Kristín Scheving, Ingunn Reinsnes og Siv Johansen.
Kaldar strendur – heitir straumar vísar í fjarlægðina sem landfræðilega skilur þessa listamenn að og samtímis þá strauma sem liggja á milli þeirra og sameina þá hér í listinni. Straumar og samstarf listamannanna sem hefur styrkst og þroskast í gegn um listina.
Sýning hóf ferðalag sitt í Gallerí Apotheket í Stokmarknes í Norður Noregi 12. september síðastliðinn og síðan var hún sett upp í Gallerí Hildreland í Bø. Í nóvember opnaði sýningin svo í Harstad Kunstforening.
Sýningin Heitir straumar - kaldar strendur opnar nú í Sláturhúsinu/Menningarhúsi Egilsstöðum, laugardaginn 17. janúar klukkan 17:00.
Styrktaraðilar sýningarinnar eru; Menningarráð Austurlands og Vesterålen, Menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs, Þjóðhátíðargöf Norðmanna Forsætisráðuneytinu og Sláturhúsið Menningarsetur ehf.
Sýningin er mjög fjölbreytt og býður upp á málverk, textílverk, ljósmyndir og myndbandaverk.
Listamennirnir hvetja skólana á Austurlandi sérstaklega til að heimsækja þessa áhugaverðu sýningu.
Sýning verður opin daglega frá 14 - 18 og um helgar frá 14 - 18. Henni lýkur 8. febrúar.
Allir velkomnir