![](/images/stories/news/2016/vopnaskak_2016_0075_web.jpg)
Kallinn að pissa flottasta fígúran á Vopnaskaki
Heimilisfólkið að Lónabraut 27 fékk verðlaun fyrir flottustu fígúruna á Vopnaskaki um síðustu helgi. Kall að pissa ofan í fötu stóð við gangstéttarbrúnina og vakti mikla athygli.
„Það er frekar fyndið að fylgjast með því á kvöldin þegar ferðamenn leggja bílunum hér við til að taka myndir,“ segir Sandra Konráðsdóttir.
Leyndarmálið að baki fígúrunni var dæla úr gosbrunni sem fjölskyldan átti. „Við byrjuðum á að hugsa hvernig við gætum nýtt dæluna og þá kviknaði hugmyndin að kallinum,“ segir hún.
Hún eignar feðgunum Hjálmari Þráinssyni og Þránni Hjálmarssyni heiðurinn að smíðinni sem farið hafi fram uppi í hesthúsi með aðstoð yngsta sonarins, Vignis Þráinssonar.
Viðmiðið er hátt hjá fjölskyldunni þar sem hún fékk viðurkenningu fyrir tveimur árum fyrir málaðan hest í garðinum. Skreytingin í fyrra vakti líka mikla athygli þar sem frystikista og þvottavél voru fengnar að láni frá áhaldahúsinu og innan í og utan á þeim héngu kallar.
Hugmyndavinnan er því þegar byrjuð fyrir næsta ár. „Pælingarnar eru byrjaðar en ég get ekki ljóstrað því upp út á hvað þær ganga. Sú útfærsla verður ekki síðri en þessi ef hún gengur eftir.“