Kammerkór Norðurlands kemur austur til að syngja bandarísk kórlög

Kammerkór Norðurlands heldur um helgina tvenna tónleika á Austurlandi undir yfirskriftinni „Sound of Silence.“ Efnisskráin einkennist af bandarískri kórtónlist.

Dagskráin var frumflutt með þrennum tónleikum á Norðurlandi í nóvember en fyrir tveimur vikum hélt kórinn tónleika á Selfossi og í Reykjavík.

Í dagskránni eru nokkur af nýrri kórverkum höfuðtónskálda Bandaríkjanna í bland við þjóðlög, trúarleg lög og þekkt popplög – öll í nýjum útsetningum. Meðal lagahöfunda má nefna Paul Simon, Eric Whitacre, Jake Runestad, Billy Joel, Ola Gjeilo, Réne Clausen og Morten Lauridsen.

Stjórnandi kórsins er Guðmundur Óli Gunnarsson, sem nam hljómsveitarstjórn í Utrecht og Helsinki. Hann starfar sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands en var áður um 23 ára skeið stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stjórnaði kammersveitinni Caput í 20 ár. Þá starfaði hann í fimm ár sem hljómsveitarstjóri Íslensku óperunnar.

Kammerkórinn sjálfur var var stofnaður haustið 1998. Kórfélagar eru víða af Norðurlandi og flestir menntaðir söngvarar og tónlistarfólk sem gerir kórnum kleift að æfa í skorpum og vinna markvisst þrátt fyrir dreifða búsetu.

Kórinn syngur í Egilsstaðakirkju á laugardag og Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.