Kammerkór Norðurlands kemur austur til að syngja bandarísk kórlög

Kammerkór Norðurlands heldur um helgina tvenna tónleika á Austurlandi undir yfirskriftinni „Sound of Silence.“ Efnisskráin einkennist af bandarískri kórtónlist.

Dagskráin var frumflutt með þrennum tónleikum á Norðurlandi í nóvember en fyrir tveimur vikum hélt kórinn tónleika á Selfossi og í Reykjavík.

Í dagskránni eru nokkur af nýrri kórverkum höfuðtónskálda Bandaríkjanna í bland við þjóðlög, trúarleg lög og þekkt popplög – öll í nýjum útsetningum. Meðal lagahöfunda má nefna Paul Simon, Eric Whitacre, Jake Runestad, Billy Joel, Ola Gjeilo, Réne Clausen og Morten Lauridsen.

Stjórnandi kórsins er Guðmundur Óli Gunnarsson, sem nam hljómsveitarstjórn í Utrecht og Helsinki. Hann starfar sem stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Suðurlands en var áður um 23 ára skeið stjórnandi Sinfóníuhljómsveitar Norðurlands og stjórnaði kammersveitinni Caput í 20 ár. Þá starfaði hann í fimm ár sem hljómsveitarstjóri Íslensku óperunnar.

Kammerkórinn sjálfur var var stofnaður haustið 1998. Kórfélagar eru víða af Norðurlandi og flestir menntaðir söngvarar og tónlistarfólk sem gerir kórnum kleift að æfa í skorpum og vinna markvisst þrátt fyrir dreifða búsetu.

Kórinn syngur í Egilsstaðakirkju á laugardag og Tónlistarmiðstöð Austurlands á Eskifirði á sunnudag. Báðir tónleikarnir hefjast klukkan 16:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar