Helgin: Kastmót á Vilhjálmsvelli, knattspyrna og myndlist

Íþróttastarf er hægt og rólega að færast í eðlilegt horf hér á Austurlandi líkt og annarsstaðar á landinu. Auk þess sem leikið verður í bikarkeppni KSÍ í knattspyrnu um helgina verður boðið upp á skemmtilegt mót á Vilhjálmsvelli þar sem spjótkastarar í fremstu röð, sem eiga það sameiginlegt að æfa undir handleiðslu Einars Vilhjálmssonar, reyna við persónuleg met auk þess sem keppt verður í kúluvarpi.

Kastmótið fer fram á laugardag og hefst kl.18. Byrjað verður á kúluvarpi en í kjölfarið verður spjótkastið sem er aðalgrein mótsins. Að sögn Hjördísar Ólafsdóttur, mótsstjóra og formanns Frjálsíþróttadeildar Hattar, bar þetta nokkuð brátt að. „EInar hafði samband við mig og spurði hvort þetta væri mögulegt. Hann vildi nota tækifærið þar sem hann yrði fyrir austan og langaði að setja smá pressu á sitt fólk að ná markmiðum sínum. Við sögðum bara já, já. Það var búið að ræða við Hrein Halldórsson um að aðstoða við mótið og Unnar Vilhjálmsson mun sömuleiðis vera á staðnum að dæma, svo þetta er ekki ekki mikið mál fyrir okkur. En það er frábært að hafa þessa aðstöðu á vellinum tilbúna og geta boðið upp á svona nokkuð.“

Meðal keppenda verða Helgi Sveinsson, Ármanni, heimsmethafi í flokki fatlaðra F63 í spjótkasti, Dagbjartur Daði Jónsson, ÍR, Íslandsmethafi pilta 20-22 ára í spjótkasti og Marta María Siljudóttir, ÍR. Þó að um nokkurskonar æfingamót sé að ræða segir Hjördís að gestir séu velkomnir í brekkuna. „Það er ekki á hverjum degi sem við sjáum keppendur í þessum gæðaflokki svo það er um að gera að koma og fylgjast með. Það er líka meira gaman fyrir þau.“

Boltinn rúllar

Knattspyrnusumarið hefst með bikarkeppni KSÍ og verða þrír leikir á Austurlandi um helgina. Í karlaflokki tekur lið Leiknis Fáskrúðsfirði á móti Einherja í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði á laugardag kl. 14. Einnig tekur Höttur/Huginn á móti Fjarðabyggð og fer sá leikur fram á Fellavelli kl. 14 á sunnudag. Í kvennaflokki tekur Fjarðabyggð/Höttur/Leiknir á móti Sindra í Fjarðabyggðarhöllinni á Reyðarfirði á laugardag kl. 17.


Leir og meir

Laugardaginn 13. júní kl. 14 verður sýningin Úr jörðu opnuð í Gallerí Klaustri á Skriðuklaustri í Fljótsdal. Um er að ræða einkasýningu Hörpu Dísar Hákonardóttur myndlistarmanns og rithöfundar. Sýningin er samtal efniviðar af svæðinu, leirs af bökkum Selfljóts og nytjatrjáa úr Fljótsdal.

Í Havarí, á Karlsstöðum í Berufirði, verður boðið upp á ljósmyndasýningu þar sem Rut Sigurðardóttir, Lilja Birgisdóttir, Stephan Stephensen, Kormákur Máni Hafsteinsson, Ingvar Högni Ragnarsson sýna myndir. Sýningin opnar kl. 14 á laugardag og með því er sumardagskrá Havarí formlega ýtt úr vör.

Á sunnudag kl. 14 mun síðan listamaðurinn Magnús Snæþór Stefánsson opna sölusýningu á verkum sínum sem standa mun í viku.


Hafnarhúsið í höfninni í Höfn í höfn

Einnig mun nýtt kaffihús opna á Borgarfirði eystra um helgina. Það er staðsett í hinu nýja Hafnarhúsi Borgfirðinga, sem finna má við höfnina í Höfn til móts við hinn víðfræga Hafnarhólma. Á efstu hæð hússins sýna síðan tveir ljósmyndarar frá Borgarfirði, Hafþór Snjólfur Helgason og Kormákur Máni Hafsteinsson, ljósmyndir.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar