Kemur Austfirðingum í „rífandi stuð“ með söng og undirleik
Hafi fólk gaman af félagsskap og rífandi gleði gæti verið þess virði að sækja svokölluð sing-a-long kvöld sem söngkonan Guðrún Árný Karlsdóttir ætlar að halda á þremur mismunandi stöðum austanlands næstu þrjú kvöldin.
Guðrún Árný er tónmenntakennari að mennt en hlotið hylli fyrir söng sinn gegnum tíðina, meðal annars með Frostrósum, auk þess að gefa út töluvert af sínu eigin efni við góðar undirtektir.
Hún hefur frá árinu 2018 haldið úti því sem hún kallar sing-a-long kvöldum, samsöngskvöldum, þar sem öllum er boðið að koma og njóta kvöldstundar með söng, spili og almennri gleði. Viðtökurnar ætíð verið góðar enda taka gestir virkan þátt í öllu saman og næstu þrjú kvöldin fá íbúar Austurlands að taka þátt í gleðinni.
„Þessi kvöld hjá mér eru aðeins mismunandi eftir því hvernig hópurinn er hverju sinni sem mætir. Ég reyni eftir getu að meta hópana og ef um er að ræða blandaðan hóp eldri og yngri, eins og oft er raunin, þá gæti ég þess að allir fái að heyra eitthvað fyrir sig. Ég hef gert þetta það lengi að ég er svona orðin meðvituð um hvað virkar á hvaða hópa og nýti mér það. En í grunninn er þetta bara skemmtileg og góð stund fyrir alla sem mæta. Ég vona sannarlega að sjá sem flesta næstu kvöldin.“
Guðrún Árný er að mæta með sitt sing-a-long í fyrsta skipti austur á land. Hún þjófstartaði aðeins á Höfn í Hornafirði í gærkvöldi þar sem aðsóknin var svo góð að mínútum áður en hún byrjaði þurfti að bæta við borðum því allt var orðið fullt.
Hún byrjar skemmtunina strax með kvöldinu í Végarði í Fljótsdal áður en hún treður svo upp í Tehúsinu á Egilsstöðum annað kvöld og endar svo Austurlandshluta ferðar sinnar í Fjarðarborg á Borgarfirði eystra á laugardagskvöld.