Keyrum svo lengi sem Ísland kemst áfram og Ladan gengur
Tveir félagar sem ætla að ferðast á heimsmeistaramótið í knattspyrnu í Rússlandi á Lödu Sport í fánalitunum halda á brott með Norrænu í kvöld. Þeir hafa tröllatrú á farartækinu sem vekur mikla athygli hvar sem hún fer um.„Við ætlum að keyra svo lengi sem Ísland kemst áfram og Ladan gengur,“ segir Grétar Jónsson.
Hann og Kristbjörn Hilmir Kjartansson hófu ferðalag sitt til Rússlands í gær þegar þeir keyrðu frá Reykjavík til Egilsstaða. Í kvöld sigla þeir með Norrænu til Danmerkur sem nær þar landi á laugardagsmorgun. Þaðan er ætlunin að keyra í gegnum Þýskaland, Pólland og Eystrasaltsríkin til Rússlands, um 2.700 km leið og koma til Moskvu tímanlega fyrir fyrsta leik Íslands sem verður í Moskvu 16. júní.
Vinnufélagarnir hlógu að hugmyndinni
Kristbjörn eignaðist Löduna þegar hann tók þátt í vegum Gamanferða og fékk hana afhenta viku fyrir jól. Hann segir hugmyndina um að ferðast á henni hafi kviknað strax en félagarnir höfðu þá þegar ákveðið að fara á mótið. „Það var hlegið að mér í vinnunni en eftir því sem við ræddum hugmyndina meira varð hún betri og betri,“ segir hann.
Ladan, sem er af 2010 árgerð, fékk yfirhalningu í vetur, farið var yfir helstu íhluti og hún máluð í fánalitunum. „Hún flaug í gegnum skoðun í gærmorgun. Við fengum bara athugasemd á flautuna, sem við vissum að virkaði ekki,“ segir Kristbjörn.
Ekki hægt að finna betri bíl í ferðalag um Austur-Evrópu
Þeir hafa fulla trú á bílnum í verkefnið en í Rússlandi bætast minnst 1500 km við þar sem Ísland spilar í Volgograd og Rostov-on-Don. Komist Ísland áfram bætast við aðrir 1500 km í næsta leik, annars 3000 km heimferð í gegnum Úkraínu.
„Ég held við gætum ekki valið betri bíl til að fara á til Austur-Evrópu. Það skiptir ekki máli hvar hún bilar, í hverju þorpi eru til varahlutir og bílinn er það einfaldur að hver sá sem veit meira um bíla en við getur gert við.“
„Frændi minn ráðlagði mér að keyra hana eins og hún væri á síðasta snúningi. Við héldum 90 km hraða í gær á þægilegum snúningi og við miðum að keyra jafn mikið hvern dag og þá. Ef það gengur eftir þá verður þetta verður þetta ekkert mál, það er að segja ef aðrir vegir verða ekki eins og Öxi,“ bætir Kristbjörn við.
Ladan dregur að sér athygli
Um ferðalagið og farartækið hefur verið fjallað í íslenskum fjölmiðlum, sem og þýskum, rússneskum og finnskum. „Hvar sem við stoppuðum á leiðinni austur í gær komu 1-2 til okkar og fleiri tóku myndir af Lödunni, bæði Íslendingar og útlendingar. Það eru margir sem vilja hitta okkur í Moskvu, við erum eiginlega búnir að segja já við of marga miðla nú þegar!“ segir Grétar
Hann hefur tvisvar áður komið til Rússlands. „Þetta er glæsilegt land með frábæru fólki. Ég vissi ekki við hverju ég átti að búast þegar ég fór fyrst, hafandi lesið vestræna umfjöllun, en ég fylgdist þarna með hersýningu í Moskvu og tók eftir að lögreglan var ekki með byssur.“