Koluppselt á Bræðsluna: Höfum ekki undan við að segja nei

Margir reyna enn að fá miða á tónlistarhátíðina Bræðsluna á Borgarfirði á morgun þótt uppselt sé orðið. Kippur hefur orðið í aðsókninni síðustu daga.

„Miðasalan var langt komin en síðustu miðarnir ruku út. Síðustu vikuna var eins og allir sem höfðu ákveðið að mæta ekki skiptu um skoðun. Við fögnum því.

Einn Borgfirðingurinn bjóst við að helgin yrði róleg og enginn í garðinum hjá honum en núna er ekki hægt að stíga niður færi þar fyrir tjöldum.

Síminn hjá okkur stoppar ekki og við höfum ekki undan að segja nei. Í guðanna bænum hættið að hringja!“ segir Bræðslustjórinn Magni Ásgeirsson.

Um 900 miðar eru seldir á tónlistarhátíðina en fjöldi gesta leggur leið sína á Borgarfjörð til þess að njóta hátíðarinnar. „Bræðslan ein er tífaldur íbúafjöldi Borgarfjarðar. Síðan er þrefaldur sá fjöldi í firðinum án miða.“

Þótt Bræðslan sjálf byggist á tónleikum á laugardagskvöld er vikan á Borgarfirði undirlögð af tónlist. Þannig voru í gærkvöldi tónleikar í félagsheimilinu Fjarðarborg þar sem Magni kom sjálfur fram ásamt völdum tónlistarmönnum. Hann var rámur að heyra þegar hann svaraði Austurfrétt í morgun.

„Ég held að við höfum öskrað í þrjá klukkutíma. Það var mikil gleði á fimmtudagsforleiknum því það var óskalagakvöld. Fólk er farið að læra á okkur og velur alls ekki endilega lög sem við kunnum eða eru auðveld. Bohemian Rhapsody í heild sinni á kassagítar er til dæmis mjög áhugavert.“

Á Bræðslunni koma fram Auður, GDRN, Dúkkulísurnar, Dr. Spock, Jón Jónsson og Friðrik Dór, Sóldögg og Jónas Sigurðsson. Magni segir að öll umgjörð Bræðslunnar sé með hefðbundnu sniði. „Við lifum eftir hugmyndafræðinni um að ef það er ekki bilað þá þurfi ekki að gera við það. Fyrir okkur er Bræðslan ættarmót og yndislegheit og við reynum ekkert að breyta því.“

Eitt af því sem mögulega kann að hafa eflt áhugann á Bræðslunni er batnandi veðurspá en von er á 20 stiga hita og sól á Austfjörðum um helgina. „Það var Mallorca-veður hér í gær. Þokan læddist síðan inn þegar tónleikarnir voru að klárast í nótt og rak fólk í háttinn. Núna virðist hún vera að passa að fólk hvíli sig almennilega fyrir átök helgarinnar. Það er þægilegra að hafa smá þoku og sudda heldur en 40 stiga hita eins og er úti í Evrópu núna.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar