Koss hrafnsins settur upp í Herðubreið

Æfingar hafa nú staðið í viku á óperunni Koss hrafnsins, eða The Raven‘s Kiss, sem sýnd verður í fyrsta skipti hérlendis þegar hún verður sviðsett í Herðubreið á Seyðisfirði um helgina. Æfingar hafa staðið í rúma viku en í ýmis horn er að líta við uppsetninguna.

„Þetta gengur orðið vel. Þetta er nútímatónlist og í henni eru miklar taktbreytingar þannig það var smá bras að koma þessu saman í byrjun.

Núna eru framfarir á hverjum degi og stemmingin í hópnum er góð. Við vinnum frá morgni til kvölds alla daga.“

Þetta segir Berta Dröfn Ómarsdóttir sem fer fyrir óperuhópnum og er einn fimm söngvara í sýningunni. Æfingar hófust sunnudaginn fyrir viku og var Berta annar tveggja söngvara sem hittu Evan Fein, tónlistarstjóra og tónskáld þann dag. Síðan hefur smám saman bæst í hópinn og í gær hófu þeir fjórir tónlistarmenn, sem mynda hljómsveitina, æfingar.

Sterkur austfirskur kjarni

Söguþráðurinn í óperunni er eftir Þorvald Davíð Kristjánsson, sem jafnframt er titlaður leikstjóri, en tónlistin eftir Evan. Sagan byggir á íslenskri þjóðsögu en verkið gerist í íslenskum firði sem er illa leikinn eftir skæða farsótt. Á einum bænum standa aðeins feðgarnir eftir en líf þeirra tekur stakkaskiptum eftir að ókunnug, erlend kona siglir inn fjörðinn ein á bát.

Feðgarnir bjarga konunni sem er örmagna en við tekur ráðgáta um fortíð hennar. Þar leynist ýmislegt og ekki hjálpar til að lögreglan á svæðinu er besti vinur föðurins sem kemur reglulega í heimsókn á bæinn með dóttur sinni. Inn í söguþráðinn blandast síðan ástir og örlög eins og gerist.

Frændsystkinin Berta og Þorvaldur hafa haft þá hugmynd í nokkur ár að setja upp verk eystra en hjólin hafa snúist hratt undanfarið ár. Fyrst var uppfærslunni valinn staður á Seyðisfirði og svo farið að finna fólk í hana.

„Við vildum gera þetta vel með alvöru fólki og helst nýta krafta af Austurlandi. Ef Austfirðingarnir voru uppteknir þá báðum við fólk sem við vitum að við getum treyst. Þetta hefur mikil undirbúningsvinna síðasta árið en skemmtileg.“

Auk Bertu syngja í sýningunni þau Ólafur Freyr Birkisson, Egill Árni Pálsson, Hildur Evlalía Unnarsdóttir og Bergþór Pálsson. Í hljómsveitinni eru svo Sigurður Helgi Oddsson, Sóley Þrastardóttir, Charles Ross og Ragnar Jónsson. Charles og Sunna búa á Fljótsdalshéraði og margir aðrir í hópnum eru með sterk tengsl við svæðið.

Sótti skó af syninum

Ekki er á hverjum degi sem ópera er sett upp á Austurlandi, en eftir því sem Austurfrétt kemst næst hefur slíkt ekki verið gert frá því að Óperustúdíó Austurlands sýndi síðast 2003. Fyrir uppfærsluna hefur ekki bara þurft að æfa söng og tónlistarflutning heldur líka þurft að útvega leikmuni og búninga. Berta segir heimafólk hafa tekið óperuhópnum opnum örmum.

„Fyrsti dagurinn var eins og þrír dagar, það var gert svo mikið. Í Reykjavík og stærri borgum þarf að fara í gegnum ákveðna manneskju og ef hún getur ekki útvegað hlutinn er málið útrætt. Hér er komið með kerru og málinu reddað.

Snorri Emilsson hefur verið okkur engill hér. Okkur vantaði rúm og hann lét okkur hafa eitt heiman frá sér. Fjóla hjá Leikfélagi Fljótsdalshéraðs varði með mér heilum degi í júlí við að leita að búningum. Einn í hópnum notar stærra skónúmer en flestir aðrir og þegar þeir voru ekki til í safninu fór hún heim og lét okkur hafa skó af syni sínum!“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar