„Krabbameinssjúklingar eru stríðsmenn andans“

Listamaðurinn Tolli Morthens heldur opinn fyrirlestur um núvitun og reynslu sína af krabbameini í Kirkjumiðsöðinni á Eiðum á laugardaginn.



Hin árlega hvíldarhelgi Krabbameinsfélags Austfjarða og Krabbameinsfélags Austurlands verður haldin á Eiðum um helgina, en þangað áætla að mæta um 20 manns. Hvíldarhelgin er þátttakendum að kostnaðarlausu.

„Sem fyrr verður ýmislegt við að vera og meðal annars þessi fyrirlestur með Tolla, en hann ákváðum við að hafa öllum opinn, ekki aðeins krabbameinssjúklingum og aðstandendum þeirra. Tolli hefur sjálfur fengið krabbamein og nýtt núvitundina í sínum bata, en þetta verður án efa mjög áhugaverður fyrirlestur fyrir alla,“ segir Jóhann Sæberg, formaður Krabbameinsfélags Austfjarða.


Núvitundarhugleiðsla setur lífið í steríó

„Það er fyrst og fremst mikill heiður að vera treyst fyrir þessu verkefni, að heimsækja austfirska félagsmenn Krabbameinsfélagsins, en krabbameinssjúklingar eru stríðsmenn andsns, það er bara þannig,“ sagði Tolli Morthens í samtali við Austurfrétt.

Sjálfur hefur Tolli sigrast á krabbameini. „Ég verð þarna til þess að deila af minni reynslu, en það er nú þannig að þeir sem fá krabbamein verða sérfræðingar í sjúkdómnum. Mannskepnan er svo ekki flóknari en það að við erum öll undir sama lögmáli og þegar við verðum sérfræðingar í einhverju verðum við sérfræðingar í þeim sem eru á sama stað og þykir gott að bera saman bækur okkar, reynslu, styrk og vonir.“

„Aðspurður hvers vegna hann hafi ákveðið að nýta sér núvitundina til í baráttunni við sín veikindi segir Tolli; „Ég fór í fíknimeðferð fyrir 21 ári og í 12 sporunum var okkur bent á að kynna okkur hugleiðslu, sem og ég gerði,“ segir Tolli sem hefur kynnt sér og unnið með núvitundarhugleiðslu síðan.

„Það er ekkert betra en núvitund til að takast á við lífið og stríðið, ekki aðeins í andstreymi, heldur setur núvitundarhugleiðsla lífið í steríó – ef þú ert í núvitund ertu á góðum stað, dílar við lífið skilyrðislaust og skapar sátt, en ekkert er betra en sátt.“

Fyrirlesturinn verður milli klukkan 14:00 og 16:00. Aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar