Krakkarnir í þriðja bekk hafa aldrei farið út að syngja
Öskudagurinn í ár er sá fyrsti eftir tveggja ára uppihald í Neskaupstað þar sem börn ganga um bæinn og syngja. Fyrir ári síðan var það veðurspáin sem var leiðinleg og árinu áður voru takmarkanir vegna covid sem komu í veg fyrir að börnin fóru út í bæ að syngja.
“Krakkarnir í þriðja bekk hafa aldrei farið út að syngja,” segir Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, aðstoðarskólastjóri Nesskóla.
Nemendur í Nesskóla byrja öskudaginn á að fara í sínar stofur og undirbúa lögin sem þau ætla að syngja og leggja lokahönd í búningana. Þar á eftir horfa bekkir skólans saman á mynd í matsalnum yfir ávaxtanestinu. Að því loknu fara bekkir skólans út og ganga í fyrirtæki bæjarins, syngja og fá nammi. Ungmennin í 10. bekk fara með fyrstu bekkingunum að syngja og 9. bekkur fer með öðrum bekk. Skólinn skipuleggur hvaða hópar byrja hvar til þess að dreifa þeim vel yfir bæinn.
Þórfríður Soffía segir kakósúpu í matinn vera fastan lið á öskudaginn. “Þegar börnin koma inn fá þau heita og mjög sæta súpu ofan í allt nammið.”
Í Múlanum samvinnuhúsi, einum stærsta vinnustað bæjarins, er stuð og stemning. Þetta er fyrsta skiptið sem börnin koma og syngja í Múlanum. Bæði covid og vond veðurspá hafa komið í veg fyrir það síðastliðin tvö ár. Kristín Ágústsdóttir, forstöðumaður Náttúrustofu Austurlands, segir að í Múlanum séu sumir í búningum og að tekið sé vel á móti gestum og gangandi.