Kynningar á sýningum sumarsins í Angró í kvöld
„Það verður mikið stuð hjá okkur í kvöld en þá ætlum við að kynna sýningar sem verða á verkum Dieter Roth í Angró, gömlu sögufrægu húsi hér á Seyðsifirði í sumar,“ segir Pétur Kristjánsson, forstöðumaður Tækniminjasafns Seyðisfjarðar.Það eru Tækniminjasafn Austurlands, Skaftfell – miðstöð myndlistar á Austurlandi, DRA (Dieter Roth Akademian), Björn Roth og fjölskylda og Elvar Kjartansson, fyrir hönd Trésmíðavinnustofunnar sf. á Seyðisfirði sem standa að verkefninu.
Kynningin hefst klukkan 18:00 en auk þess að varpa ljósi á sýningar sumarsins verður einnig fjallað um kynning á fyrirhugaða uppsetningu á safni Diether Roth sem kallast Hvenær sem er. Í kjölfar hennar verður sýnd bíómynd í Herðubreið um Dieter Roth eftir Edith Jud. Sýningin hefst klukkan 19:00 og er frítt inn.
Heimsfrumsýning á „Sjoppumyndum“
Angró er stórt og glæsilegt, sögufrægt hús byggt árið 1881 af Norska framkvæmdaskipstjóranum Otto Wathne. Fjölbreytt starfsemi hefur verið þar í þau 137 ár sem það hefur staðið á sínum stað. Húsið hefur mátt muna fífil sinn fegurri eftir viðhaldleysi um langt árabil, þar til það komst í umsjá Tækniminjasafns Austurlands árið 2006 en síðan þá hefur það verið í hægri endurbyggingu.
Fjöldi sýninga verða í Angró 2019. Til dæmis heimsfrumsýning á „Sjoppumyndum“ Dieter Roth hans fyrir myndvarpa, sýningin „Gömul hús í nýjum störfum“ um vel heppnaða nýtingu gamallra húsa til menningarstarfsemis á breiðum grunni og svo Smiðjuhátíðin með handverksnámskeiðum, sýningum, tónlist, bryggjuballi og ekta gamaldags íslenskan mat. Þá verður sýningin Seyðisfjarðarskyggnur aftur á dagskrá;
„Árið 1995 hélt Dieter Roth sýningu á skyggnumyndum sem hann hafði látið taka af öllum húsum á Seyðisfirði veturinn 1988 og síðan aftur sumarið 1995. Hann fékk leyfi til þess að sýna myndirnar í neðri partinum á Angró, gerði veglega sýningarskrá og lét síðan smíða forláta kistu utan um myndirnar og nokkrar slædsmyndavélar og færði bæjarbúum allt klabbið til eignar. Það kom í hlut Tækniminjasafnsins að varðveita þær. Sýningin vakti mikla athygli, ekki síst fyrir þær sakir að svo frægur listamaður skyldi sýna í svona ljótu, ómerkilegu húsi sem margir höfðu hug á að rífa sem allra fyrst. En þetta varð til þess að margir heimsóttu sýninguna, sáu húsið innan frá og upplifðu andrýmið sem þar ríkti. Sumir og síðan aðrir fóru að efast um að ljótleikastimpillinn væri rétti dómurinn og áttuðu sig á því að hér var aðeins um vanhirðu að ræða og virðingaleysi við handverkið. Sumir vilja meina að þarna hafi orðið þáttaskil í húsaverndarmálum á Seyðisfirði og jafnvel víðar á landinu,“ segir Pétur.