Laddi pínu súr en aðrir himinlifandi með Bræðsluhelgina

Bæði gestir og heimamenn á Borgarfirði eystra voru glaðir og reyfir alla Bræðsluhelgina enda fór allt meira og minna vel fram í bænum og á hátíðarsvæðinu sjálfu.

Eins og verið hefur nánast frá upphafi hátíðarinnar var löngu orðið uppselt á tónleikana sjálfa á laugardagskvöldið en þar komu fram afar vinsælir listamenn á borð við Bríeti, Jóa Pé og Króla, Unu Torfa og Maus að ógleymdri goðsögninni Ladda sjálfum. Hann tók allmörg af sínum frægustu lögum og tóku flestir í salnum undir sönginn enda textarnir margir greyptir í huga þeirra sem eldri eru. Heimamennirnir Jón Arngrímsson og Valgeir Skúlason stigu einnig á stokk og þar líka kunnu velflestir í salnum lögin þeirra utanað. Afabarn Jóns, söngkonan Karlotta, kom einnig fram við góðar undirtektir og vitaskuld tók skipuleggjandinn og tónlistarmaðurinn Magni Ásgeirsson, fullan þátt í öllu saman.

Laddi var sjálfur að heimsækja Borgarfjörðinn fyrsta sinni og var yfir sig ánægður með frábærar móttökurnar á svæðinu. Hann gantaðist þó með að hann væri mjög súr með loforð um stórkostlega náttúru allt í kring enda hafi hann varla séð nokkurn hlut meðan hann dvaldi í bænum sökum þokulæðu sem sat yfir nánast alla helgina. Honum leiddist þó ekkert að vitna lundagerið í Hafnarhólmanum.

Að sögn skipuleggjenda gekk allt eins og best varð á kosið enda hátíðin verið haldin það lengi að fátt kemur þeim á óvart. Sama var uppi á teningnum í félagsheimilinu Fjarðarborg á föstudagskvöldinu þar sem einnig var boðið upp á tónlistarveislu og salurinn troðinn allt það kvöld. Lögreglan á svæðinu gaf gestum fína einkunn enda kom ekkert stórvægilegt upp á vaktinni yfir hátíðina.

Magni og Laddi í húrrandi stuði í lokalagi þess síðarnefnda en heill salur af fólki söng með lögum kappans á laugardagskvöldið. Mynd AE

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.