Landshlutakeppnin Íslenskt eldhús 2009

Matreiðslukeppni landshlutanna, Íslenskt eldhús 2009, fer fram sunnudaginn 10. maí nk. á sýningunni Ferðalög og frístundir sem haldin verður í Íþrótta- og sýningarhöllinni í Laugardal 8.-10. maí. Keppnin er haldin af Klúbbi matreiðslumeistara og sýningunni Ferðalögum og frístundum. Landshlutarnir senda keppendur og dómara til þátttöku og notar hver keppandi hráefni sem tengist viðkomandi landshluta. Markmið keppninnar er að kynna það besta sem hver landshluti hefur upp á að bjóða í mat og vekja athygli á hefðbundnum jafnt sem óhefðbundnum kræsingum úr íslensku matarkistunni.

fiskur.jpg

Tilkynnt verður um úrslit við formlega athöfn í lok sýningarinnar, þar sem veitt verða verðlaunin „Íslenskt eldhús 2009“. Keppt verður fyrir opnum tjöldum, þannig að sýningargestum gefst færi á að fylgjast með matreiðslumeisturunum að störfum. Í tilkynningu segir að auk landshlutakeppninnar standi Klúbbur matreiðslumeistara fyrir tveimur öðrum matreiðslukeppnum á sýningunni Ferðalög og frístundir. Sú fyrsta, sem fram fer föstudaginn 8. maí, ber yfirskriftina Matreiðslumaður ársins og keppnin Matreiðslumeistari Norðurlanda fer fram laugardaginn 9. maí.   „Þetta verður í annað sinn sem keppt er um titilinn Íslenskt eldhús en fyrsta keppnin var haldin árið 2006, þar sem Ægir Friðriksson vann titilinn fyrir Austurland. Það verður spennandi að sjá hvernig fer núna þar sem matarklasar og félög um matarhefðir og hráefni úr héraði eru að spretta upp í öllum landshlutum. Matreiðslumenn eru farnir að líta sér nær í hráefnisöflun og uppfæra gamlar hefðir í matreiðslu með flottri útkomu,“ segir Bjarki Hilmarsson matreiðslumeistari, sem hefur umsjón með keppnunum fyrir hönd Klúbbs matreiðslumeistara. Keppendur koma frá Vestfjörðum, Austurlandi, Norðurlandi, höfuðborgarsvæðinu, Suðurlandi og Suðurnesjum, en síðastnefndu landshlutarnir tveir sameinast um einn keppanda.       Á sýningunni Ferðalög og frístundir sameinast á einum stað allt sem viðkemur ferðalögum, frístundum og afþreyingu, innanlands og utan. Sýningin Golf 2009 verður haldin samhliða Ferðalögum og frístundum – og kjarninn í ferðasýningunni verður Ferðatorgið, þar sem ferðamálasamtök landsins kynna hvert sinn landshluta og ferðaþjónustu á sínu svæði. Á Matartorginu verða svo matreiðslukeppnirnar þrjár, en matarmenning er samofin velheppnuðum ferðalögum og frístundum og fellur því vel að sýningunni.


Framkvæmdaraðili sýningarinnar Ferðalaga og frístunda er AP almannatengsl og samstarfsaðilar iðnaðarráðuneytið, Ferðamálasamtök Íslands, Ferðamálastofa, Golfsamband Íslands og Icelandair. Starfsmenn AP almannatengsla hafa áralanga reynslu í stjórnun stærri jafnt sem minni viðburða og hafa m.a. séð um sýningarnar Verk og vit 2006 og 2008 og Tækni og vit 2007. Nánari upplýsingar er að finna á www.ferdalogogfristundir.is.

Ljósmynd: Alfreð Ómar Alfreðsson, forseti Klúbbs matreiðslumeistara, Áslaug Pálsdóttir, framkvæmdastjóri AP almannatengsla, og Margrét Sveinbjörnsdóttir, kynningar- og verkefnastjóri sýningarinnar Ferðalög og frístundir, við undirritun samstarfssamnings um matreiðslukeppnirnar þrjár á Ferðalögum og frístundum.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar