Landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga hafið
XXIII. landsþing Sambands íslenskra sveitarfélaga var sett á Hilton Nordica Hotel í Reykjavík í morgun. Halldór Halldórsson formaður sambandsins setti þingi. Í ræðu sinni fjallaði hann einkum um fjármál sveitarfélaga og viðbrögð þeirra við efnahagsvandanum. Hann ræddi þær launalækkanir sem sveitarfélögin hafa orðið að grípa til og hvatti til að fundnar verði leiðir til þess að lækka kostnað við rekstur grunnskóla í samráði við kennara.
Halldór sagði að sveitarfélög og ríki yrðu að grípa til ráðstafana sem örvi atvinnulífið og að þær ráðstafanir felist ekki í aukinni skattheimtu af hálfu hins opinbera. Niðurskurður og hagræðing er það sem gildi við þær aðstæður sem menn búi við nú um stundir.
Formaðurinn greindi og frá viljayfirlýsingu sambandsins og ríkisstjórnar Íslands um tilfærslu á þjónustu við fatlaða frá ríki til sveitarfélaga, sem áætlað er að verði í ársbyrjun 2011.