Jón Skuggi: Við gleðjumst með Diljá alla leið
Úrslitakvöldið í Söngvakeppninni fór fram síðastliðið laugardagskvöld þar sem Diljá Pétursdóttir sigraði keppnina með lagi sínu „Power”. Hljómsveitin Langi Seli og Skuggarnir lentu í öðru sæti með laginu „OK”. Jón Skuggi segir félagana í sveitinni sátta við sinn hlut og þakklátir fyrir stuðninginn.
Jón Þorleifur Steinþórsson, kallaður Jón Skuggi, er alinn upp í Skuggahlíð í Norðfirði og spilar á kontrabassa í hljómsveitinni. „Í æsku var ég kenndur við bæinn og kallaður Jón Skuggi til aðgreiningar frá öðrum í sveitinni og nafnið á hljómsveitinni dregið af því”.
Jón Skuggi segir allt ferlið hafa verið skemmtilegt og það hafi verið gaman að taka þátt. “Við erum sáttir við okkar hlut,” segir Jón Skuggi. Hann segir niðurstöðuna framar öllum væntingum.
Langi Seli og Skuggarnir voru einu þátttakendur keppninnar sem sungu á íslensku á úrslitakvöldinu. „Við höfum alltaf sungið á íslensku og hugsað okkar tónlist fyrir Ísland frá upphafi,” segir Jón Skuggi. „Viðlagið okkar er alþjóðlegt, en hrynjandinn í íslenska textanum er svo mikill hluti af laginu.”
Jón Skuggi segir hljómsveitina mjög sátta. „Við gleðjumst með Diljá að fara alla leið, hún er frábær söngkona með frábært lag. Við erum fyrst og fremst mjög þakklátir þjóðinni fyrir stuðninginn.”
Jón Skuggi segir að þeir séu alltaf til í að koma og spila fyrir Austfirðinga. „Við vonum að Austfirðingar fari að hringja og fá okkur til að spila, við erum til”
Mynd: RÚV, Mummi Lú