Leita leiða til að bæta viðnám samfélaga við veðurröskunum
Matís á Austurlandi, í samstarfi við Austurbrú, er meðal 42 mismunandi aðila víðs vegar úr Evrópu sem þátt taka í stóru verkefni sem miðar að því að vinna að nýrri nálgun á náttúrumiðuðum aðferðum til að sporna gegn ýmsum neikvæðum áhrifum sem loftslagsbreytingar valda. Verkefnið kallast NATALIE og verkefnastjóri Matís í því er Anna Berg Samúelsdóttir.Í grunninn eru það stofnanir í átta löndum sem vinna að útfærslum og þróun nálgunar á náttúrumiðuðum lausnum í baráttunni við síauknar áskoranir vegna veðurraskana af völdum loftlagsbreytinga. Það kemur svo í hlut enn fleiri aðila frá fimm löndum til að sannreyna þær nýju útfærslur sem á borð koma, og þar á meðal verður Ísland, eða stór hluti Austurlands í þessu tilfelli.
„Þetta er merkilegt að mörgu leyti en kannski ekki síst vegna þess að þetta er í fyrsta skipti sem unnið er sérstaklega með að innleiða náttúrumiðaðar lausnir (e. Natur-based solutions) sem verkefni á Íslandi. Ekkert verkefni á Íslandi hefur einskorðast við það að innleiða náttúrumiðaðar lausnir. Það er auðvitað fjöldi verkefni sem unnið er að í landinu sem hafa ýmsa snertifleti við slíkar lausnir en þetta tímamót séu litið til þess að lagt er upp með að innleiða slíkar lausnir,“ segir Anna Berg.
„Náttúrumiðaðar lausnir snúa að því að nýta ferla náttúrunnar til að efla viðnám svæða. Við getum tekið sem dæmi að vegna loftlagsbreytinga og veðurraskana þeirra vegna þá verða áhrif á borð við öfgarigningar sem geta valdið skriðum. Aurskriðuhætta tengist svo einnig hækkandi hitastigi og hættu á þiðnun sífrera.
Í slíku tilfelli með náttúrulegar lausnir er spurningin hvað getum við gert til þess að sporna við því að aurskriður fari af stað, svo sem með að drena ákveðin svæði. Ef við getum það ekki hvernig getum við þá í besta falli minnkað áhrif slíkra skriða og ef það er útilokað hvernig getum við þá greint umfang hættunnar og aukið viðnámsþol samfélagsins. Viðnámsþolið er til að mynda að vera meðvituð um hættuna og þá verður allt skipulag eða viðbrögð með þeim hætti á viðkomandi svæði og til að mynda ekki verið að skipuleggja byggð á vafasömum svæðum.“
Hver eru eftirköstin af aurskriðu?
Að verkefninu koma síðan sérfræðingar frá háskólum og vísindastofnunum. Þeir hafa meðal annars útbúið líkan sem sýnir heildaráhrif af skriðuföllum. „Þótt vegur rofni eða vatnslagnir fari í sundur er engin bráð hætta fyrir íbúa en áhrifin á samfélagið, fjárhagsleg og tilfinningaleg, geta verið umtalsverð á skömmum tíma. Skólar þurfa að loka, matarflutningar verða flóknari og svo framvegis. Líkanið reiknar líka hugsanleg fjárhagsáhrif í víðu samhengi því þó laga megi veg á skömmum tíma tekur kannski vikur að lagfæra vatnslagnir og fyrir allt slíkt þarf auðvitað að greiða,“ segir hún.
Hjá Matís er megináherslan í verkefninu á Reyðarfjörð og Seyðisfjörð. Anna segir vinnuna geta nýst með ýmsu móti, öll fyrirtæki og sveitarfélög eigi mikið undir ef áhrif veðurraskana magnast undanfarin.
Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.