Les Aðventu Gunnars Gunnarssonar í gömlu þýsku fjárhúsi

Þýski leikarinn Richard Schneller les um helgina Aðventu, sögu Gunnars Gunnarssonar um Fjalla-Bensa og leit hans að eftirlegukindum, á veitingastað sem áður var fjárhús. Richard segist mikill aðdáandi sögunnar og finna til sterkra tengsla við aðalsöguhetjuna.


„Ég er leikari en ég vann sex sumur í svissnesku fjöllunum þar sem ég lærði að umgangast kýr og búa til osta. Ég veit því hvernig það er að gagna um óbyggðir í stormi, regni, jafnvel snjó í leit að dýrum,“ segir Richard.

Hefð hefur skapast fyrir því að Aðventa sé lesin upp á nokkrum stöðum í heiminum þegar líða fer að jólum. Þetta er í fyrsta sinn sem Richard tekur þátt í lestrinum en hann mun lesa upp úr bókinni á laugardag í Café Schafstall í Büsenbachtal, skammt sunnan Hamborgar, og viku síðar í bókabúð sem kennd er við Rudolf Steiner í borginni sjálfri.

Segja má að vettvangur fyrri upplestrarins sé sérlega viðeigandi. Kaffihúsið er hýst í gömlu fjárhúsi sem fengið hefur nýtt hlutverk. Tengingin við fyrra hlutverk er enn sterk þar sem eigendur staðarins halda enn nokkrar kindur og boðið er upp á viðburði sem tengjast sauðfé. Richard segir því að það hafi legið beint við að velja Aðventu þegar eigendur staðarins leituðu eftir því við hann að troða upp.

Richard kynntist Aðventu þegar móðir hans færði honum bókina fyrir nokkrum árum. „Ég elska þessa sögu. Hún er svo kraftmikil og einlæg.

Að tengjast náttúrunni og dýrunum færir manni trú. Ég er ekki trúaður eins og Benedikt en ég skil hann, eða elska sýn hans á lífið og hvað það þýðir að vera mannvera. Ég vona að hjálpi fólki að tengjast sjálfu sér að hlýða á söguna og hugsa eða hegða sér rökréttar eftir innri sannleika en ekki vegna skyndiþarfa. Það eru furðuleg heit innra með Benedikt, burtséð frá öllum hans löngunum og óuppfylltu draumum.

Aðventa er afar mannleg og djörf. Ég held að við þurfum öllum að líkjast Benedikt meir ef við viljum breytast til að bjarga okkur sjálfum og veröldinni,“ segir Richard, sem mun leika á harmonikku á milli þess sem hann les upp úr sögunni.

Gunnarsstofnun hefur í áraraðir staðið fyrir upplestri á sögu Gunnars um góða hirðirinn og föruneyti hans sem heldur upp á hálendið á aðventu til að leita kinda. Lesið hefur verið á Skriðuklaustri, í húsi Gunnars í Reykjavík og á nokkrum stöðum erlendis. Þegar hefur verið staðfest að lesið verði í Berlín og Moskvu. Lesturinn á Klaustri í ár verður þann 8. desember.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar