Ólöf mun beita sér fyrir að Norðfjarðargöngum verði ekki frestað

Ólöf Nordal, þingmaður Sjálfstæðisflokks í Norðausturkjördæmi og varaformaður samgöngunefndar Alþingis, hét því á almennum stjórnmálafundi í Neskaupstað í vikunni að fylgja því fast á eftir á þingi að Norðfjarðargöngum yrði ekki frestað frekar en orðið er. Björn Bjarnason, dóms- og kirkjumálaráðherra, sagði við sama tækifæri að settur yrði lögreglustjóri á Austurlandi og skilið á milli valds sýslumanna og lögreglustjóra og sýslumanna og tollgæslunnar.

lf_nordal_vefur.jpg

Þingmennirnir ræddu í framsögum sínum fjármálakreppu Íslands og umheimsins, auk Evrópumálanna. Björn sagðist andvígur inngöngu Íslands í Evrópusambandið og nú þyrfti Sjálfstæðisflokkurinn að taka afstöðu til þeirra mála á komandi landsfundi. Ljóst væri að samstarfsflokkurinn í ríkisstjórn væri fylgjandi aðild og umhugsunarefni væri hver staða ríkisstjórnarinnar yrði ef Sjálfstæðismenn höfnuðu aðild en Samfylking vildi inn í Evrópusambandið.

 

Ólöf lýsti því yfir að miður væri að menn leituðu sökudólga vegan bankahrunsins. Auðlindir þjóðarinnar myndu fleyta henna áfram ef vel væri á málum haldið. ,,Önnur heimssýn blasir við og stjórnvöld verða að marka sér skýra stefnu um hvernig á að koma þjóðinni út úr þessu ástandi,” sagði Ólöf.

 

Spurningar til Ólafar voru nánast eingöngu um samgöngumál. Bent var á að því hefði margsinnis verið lofað að ný göng kæmu á milli Eskifjarðar og Norðfjarðar og þá í tengslum við báðar sameiningarnar sem átt hafa sér stað á Austurlandi. Nú væri allt útlit fyrir að Norðfjarðargöngum yrði slegið á frest, enn einu sinni. Samgönguáætlun lítur dagsins ljós á næstu vikum og lofaði Ólöf því að hún myndi fylgja því fast eftir á þingi að ekki yrði frestað enn einu sinni.

 bjrn_bjarnason_vefur_1.jpg 

Einn fundarmanna benti á að ný Norðfjarðargöng yrðu þjóðhagslega hagkvæm, á Austurlandi yrðu mestu útflutningsverðmætin til og þjóðarframleiðsla mörgum sinnum hærri á hvern íslendinga en í öðrum landshlutum. Hér þyrftu samgöngur að vera í lagi, meðal annars vegna þessa sem og tengingar við Fjórðungssjúkrahúsið í Neskaupstað og Verkmenntaskóla Austurlands.

 

Björn Bjarnason fékk fyrirspurn um löggæsluna á Austurlandi. Hann sagði að settur yrði lögreglustjóri á Austurlandi og skilið á milli valds sýslumanna og lögreglustjóra og sýslumanna og tollgæslunnar. Þá yrði landið eitt tollsvæði. Það fælust miklir möguleikar í þróun eftirlits og gæslu og ný sóknarfæri væru til staðar ef litið yrði til ferjuhafnarinnar á Seyðisfirði og flugvallarins á Egilsstöðum.

 

Ólöf sagði að borið saman við landsbyggðina væri Stór-Reykjavíkursvæðið rjúkandi rúst og meiri skilningur væri á því en áður að ekki mætti allt sogast á höfuðborgarsvæðið.

Texti og myndir: Elma Guðmundsdóttir

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar