Lífið um borð í Gullveri og uppskriftir með
Ísfisktogarinn Gullver hefur lengi verið gerður út frá Seyðisfirði og þar ýmsir heimamenn fengið eldskírn sína á sjó gegnum tíðina. Einn þeirra er einn nýrra eigenda Skaftfells bistró, Garðar Bachmann Þórðarson, sem gerði sér lítið fyrir og skellti sér á sjó með Gullveri um tveggja ára skeið sem kokkur.Garðar, með góðri aðstoð frá félaga sínum Guðmundi Snæ Guðmundssyni, gekk svo nýverið enn lengra þegar hann skrifaði og gaf út litla bók um lífið um borð auk uppskrifta að fjölmörgum þeim klassísku íslensku réttum sem áhöfnin vildi fá á sitt borð á matmálstímum. Bókin heitir „Brak & brestir – matur og menn um borð í togaranum Gullveri NS-12.“
Garðar, sem var nýkominn erlendis frá 2020, hafði enga reynslu af sjónum þegar hann sótti um og fékk kokkastarfið á togaranum. „Ég fregnaði að það hefði losnað pláss fyrir kokk á skipinu. Ég sótti umsvifalaust um og fékk það starf um borð.
Ekki leið svo á löngu áður en ég fékk þá flugu í höfuðið að gera þessum tíma einhver skil með bók. Gera svona litla bók um þessa miklu heimild sem þessi togari er með augum kokksins um borð. Ég hripaði hjá mér eitt og annað sem mér fannst merkilegt eða spennandi þann tíma sem ég var um borð og það kemur að hluta fram í bókinni.“
Klassískar íslenskar uppskriftir
Það fór aldrei á milli mála hvað áhafnarmeðlimir vildu allra helst fá í matinn meðan á túrum stóð. „Til dæmis eru ákveðnir réttir sem áhöfnin bað um aftur og aftur og nánast alltaf var það þessi klassíski íslenski matur. Ég er ekkert að finna upp hjólið með þessu en þetta er heimur sem ekki allir þekkja og mér fannst komin tími til að gera skipinu og áhöfninni hærra undir höfði og maturinn er hluti af þessu öllu saman.“
Auk uppskrifta að réttum á borð við plokkfisk og þrumara, pönnusteiktan þorsk, kjötfars og kálböggla og fleiri slíkra, prýðir bókina töluvert af myndum af lífinu um borð auk stuttra hugleiðinga og forvitnilegra samtala Garðars við áhafnarmeðlimi um sjómannslífið.
„Ég hafði mjög gaman af þessum tíma mínum á sjó og gaman að þessum körlum um borð sem margir voru búnir að vera lengi á togaranum. Það var alltaf einhvers konar rómantík yfir þessu sjómannslífi og því reyndi ég að festa fingur á með bókinni.“
Mynd: Síldarvinnslan/Ómar Bogason