![](/images/stories/news/2016/lionsklubburinn_muli_styrkir.jpg)
Lionsfélagar styrktu hollvini heilbrigðisþjónustu
Lionsklúbburinn Múli veitti nýverið Hollvinasamtökum heilbrigðisþjónustu á Fljótsdalshéraði 300.000 króna styrk. Styrkurinn var veittur við lok 46. starfsárs klúbbsins.
Starf klúbbsins var með hefðbundnu sniði á starfsárinu. Stærsta fjáröflunin var útgáfa auglýsingadagatals þar sem fyrirtæki á Héraði kaupa auglýsingar og leiga leiðiskrossa í grafreiti sem settir eru upp yfir jólahátíðina.
Þeir peningar sem safnast renna í svokallaðan verkefnasjóð og eru notaðir til að styrkja ýmis málefni, bæði einstaklinga sem þurfa á aðstoð að halda og hin ýmsu félagasamtök.
Einnig hefur klúbburinn í mörg ár haldið jólaball í samstarfi við Fljótsdalshérað. Haldið er skákmót í samstarfi við grunnskóla á Héraði sem kennt er við Múla, þar sem klúbburinn gefur verðlaun.
Styrjum úr verkefnasjóðnum var úthlutað á síðasta fundi starfsársins 2015-2016. Hollvinasamtökin fengu stærsta styrkinn en að auki fengu Skíðafélagið í Stafdal og Örvar, íþróttafélag fatlaðra, 50 þúsund króna styrk hvort.
Gísli Sigurðsson, gjaldkeri Múla, Guðlaugur Sæbjörnsson gjaldkeri hollvinasamtakanna og Þórarinn Pálmason, varaformaður næsta starfsárs.