List í ljósi fékk Eyrarrósina: Eigum ekki til orð
Listahátíðin List í ljósi hlaut í dag Eyrarrósina, viðurkenningu fyrir framúrskarandi menningarverkefni á landsbyggðinni. Annar stofnanda hátíðarinnar segir verðlaunin gæðastimpil fyrir hátíðina.„Við eigum ekki orð en erum gríðarlega þakklátar því þetta er ungt verkefni og hin verkefnin sem tilnefnd voru mjög flott – eins og alltaf,“ segir Sesselja Hlín Jónasardóttir, annar stofnanda og stjórnenda hátíðarinnar.
Hún tók á móti verðlaunum, sem afhent voru í Garði, ásamt Celiu Harrison, hinum stofnanda og stjórnanda Listar í ljósi. Eliza Reid, forsetafrú og verndari Eyrarrósarinnar, afhenti verðlaunin.
„Í okkar huga eru þau gæðastimpill. Við erum gríðarlega stoltar af hátíðinni og höfum alltaf verið en það gleður okkur að fleiri sjái það.“
Í umsögn dómnefndar segir að hátíðin laði til sín breiðan hóp listafólks og gesta sem taki þátt í metnaðarfullri og fjölbreyttri dagskrá. Sérstök ljósalistahátíð sé nýnæmi í íslensku menningarlandslagi.
Hátíðin sé farin að hafa áhrif langt út fyrir Seyðisfjörð, til dæmis með samstarfi við Vetrarhátíð í Reykjavík. Einstaklega ánægjulegt sé að sjá listaverkefni á landsbyggðinni taka leiðandi hlutverk á landsvísu á sínu sviði.
Hátíðin verður haldin í fjórða sinn um næstu helgi. „Við erum á leið beint í flug austur, þar förum við í vinnugallann og byrjum að setja verkin upp. Það er mikil keyrsla á okkur þessa vikuna en bara skemmtileg,“ sagði Sesselja sem var á leið úr Garði þegar Austurfrétt hafði tal af henni.
Eyrarrósinni fylgir verðlaunagripur og tveggja milljóna styrkur. Hún var nú afhent í fimmtánda sinn en að viðurkenningunni standa Listahátíð í Reykjavík, Byggðastofnun og Air Iceland Connect.
Fjögur austfirsk verkefni hafa áður fengið rósina: Listahátíð ungs fólks – LungA, Skaftfell menningarmiðstöð og tónlistarhátíðirnar Eistnaflug og Bræðslan. List í ljósi er þar með þriðja verkefnið með aðsetur á Seyðisfirði sem hlýtur viðurkenninguna.
Reikna má með að verðlaunin verði afhent eystra að ári en sú hefð hefur myndast að afhenda þau í heimabæ sigurvegara síðasta árs.
Mynd: Víkurfréttir/Hilmar Bragi Bárðarson