Listaverkin um hvalina hreyfa við fólkinu sem býr við hafið

Sjávarblámi, eftir Bryndísi Snæbjörnsdóttur og Mark Wilson, sumarsýningu Skaftfells á Seyðisfirði lýkur á föstudag. Á sýningunni beina þau sjónum sínum að nytjum af hvölum, bæði hvalrekum fyrri tíma og hvalveiðum. Hvalveiðistöðin á Vestdalseyri varð innblástur að sýningunni.

„Þetta fór þannig af stað að við vorum á Seyðisfirði og Pari Stave (fyrrum forstöðumaður Skaftfells) sagði okkur frá því að bandarískur athafnamaður, Thomas Welcome Roys, hafði á 19. öld rekið hvalveiðistöð á Vestdalseyri. Roys er talinn hafa fyrstur fundið upp sprengiskutulinn, þótt hann hafi ekki fengið formlega viðurkenningu á því.

Hann kallaði byssuna eldflaugabyssu, en hún var þung og borin á öxl skyttunnar. Í einum af tilraunum með byssuna missti Roys höndina, en hann hélt ótrauður áfram og vonaðist til að sanna gildi vopnsins á Austfjarðamiðum.

Síðar endurbætti Roys þessa skutulbyssu með því að bæta við flotholti. Það auðveldaði veiðar á stórhvölum eins og steypireyði, sem var eftirsótt vegna mikils magns af spiki sem var mjög verðmætt þá. Þessi mikla veiði varð til þess að steypireyðum var næstum útrýmt.

Hvalasérfræðingurinn Marianne Helene Rasmussen, hjá Rannsóknasetri Háskóla Íslands á Húsavík, sagði okkur frá því að áður fyrr hefðu steypireyðar einnig gengið upp að Austurlandi, en ekki bara upp að Vestur- og Norðurlandi.

Ástæðurnar fyrir því að þær voru ekki lengur á svæðinu eru óljósar og spurning hvort umræddar hvalveiðar hafi haft áhrif á það. Í samvinnu við Marianne höfðum við hug á að setja upp hljóðnema til að kanna hvort þær kæmu inn Seyðisfjörð,“ segir Bryndís um söguna á bak við sýninguna.

Skoðuðu svæðið við Vestdalseyri


Við undirbúning sýningarinnar ræddu þau líka við Ragnar Eðvaldsson, sem rannsakað hefur hvalveiðar við Ísland á fyrri tímum en Bryndís segir hann sannfærðan um að við Vestdalseyri sé að vinna bein stórhvela, á borð við steypireyði og langreyði.

Farið var með neðansjávardróna Björgunarsveitarinnar Ísólfs í könnunarferð við Vestdalseyri. „Við fundum ekki hvalbein í þessum neðansjávarferðum, en verkinu er ætlað að kalla fram áhrif leitar að þeim á svæðinu“ segir Bryndís.

Aðspurð segist hún ekki geta sagt til um hversu vel Seyðfirðingar þekki sögu hvalveiðanna á Vestdalseyri. „Við sögðum frá henni við opnun sýningarinnar og það var greinilegt að fólk hafði áhuga. Ég held að sýningin falli í góðan jarðveg hér hjá fólki sem býr við sjóinn og veit hvað veiðarnar geta gefið byggðinni og samfélaginu.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar