![](/images/stories/news/folk/asgrimur_ingi_des16_bw.jpg)
Ljóðabók um hagfræði: Ef menn tala ekki um veðrið þá er það verðandi eða orðið hrun
Ásgrímur Ingi Arngrímsson sendi nýverið frá sér sína þriðju ljóðabók. „Kveðið sér ljóðs - Ljóðræn hag-, mál- og félagssálfræði fyrir byrjendur, lengra og hætt komna.“ Eins og nafnið ber með sér tekst hann þar meðal annars á við hið ljóðræna í hagfræði.
„Það er eitthvað mjög ljóðrænt við það hvernig Íslendingar nálgast hagfræði. Ég veit ekki hvort maður eigi að nota orðið fallegt en hagfræðin hefur verið fyrirferðamikil í samfélaginu í nokkuð mörg ár, að minnsta kosti löngu fyrir hrun.
Við erum vön að heyra þessi hugtök alls staðar frá degi til dags, bæði í fréttum og manna á milli. Ef veðrið er ekki umræðuefnið þá er það verðandi eða orðið hrun. Hagkerfið er eins og veðrið – óútreiknanlegt,“ segir Ásgrímur Ingi.
„Það er óplægður akur að fjalla um hagfræði í ljóðum. Mér vitanlega hafa ekki áður verið gefnar út ljóðabækur um hagfræði. Það er hins vegar mikið af myndrænum hugtökum í hagfræðinni sem nota má í ljóðlistinni.“
Elsta ljóðið í bókinni er Helvíti hf., ort upp úr aldamótum. Ingi segist hafa tekið aftur til við hagfræðiljóðin í kringum hrunið og varð þá til ljóðið Nýja helvíti.
Ásgrímur Ingi sækir einnig innblástur í íslenska málfræði. „Sum ljóðanna hafa vakið djúpstæða hrifningu afmarkaðs hóps í samfélaginu sem eru íslenskukennarar á miðjum aldri eða þar yfir.
Þetta er ákveðin tilraun til að byggja brú milli ljóðsins og málfræðinnar sem oft hefur verið stillt upp sem andstæðum, annars vegar reglum málfræðinnar og hins vegar hinu frjálsa formi ljóðsins. Kennararnir hafa sýnt áhuga á að nota ljóðin í kennslu.“
Ásgrímur Ingi er Austfirðingum kunnastur sem veitingamaður í Fjarðaborg á Borgarfirði síðustu ár og áður fréttamaður á svæðisútvarpinu. Hann býr og starfar sem kennari á Akureyri í dag.
Kveðið sér ljóðs er þriðja ljóðabók hans en þrettán ár eru síðan sú síðasta kom út. „Þetta var ekki erfið fæðing heldur bara löng meðganga. Konan mín Heiðdís Halla Bjarnadóttir er að læra grafíska hönnum og tók að sér að reka á eftir mér og setja upp bókina til að hún mætti verða að veruleika.“
Ísland fjárvana frón
Ísland fjárvana frón
og hagstjórnar hörmungar dæmi.
Skömm er þín skjótfengna frægð
skulduga betlandi þjóð.
Já, allt er í heiminum hverfult
og ekki er allt gull sem glóir.
Stund þíns stórmerka frama
varð styttri en áætlað var.
Íslands frjálshyggjuflón
og siðlausa svindlarapakk
gengur enn sjálfala samt
og sukkar og græðir á víxl.
Gelgjuskeið
Í alþjóðlegum samanburði
er íslenskt hagkerfi
enn að slíta barnsskónum
Það minnir líka um margt á ungling.
Hvatvíst, óábyrgt og útsett fyrir bólum.