„Lögin mín eru eins og dagbókarfærslur um líf mitt“

Anya Shaddock, tónlistarkona frá Fáskrúðsfirði, sendi síðasta haust frá sér plötuna „Inn í borgina.“ Hún segir tónlistina hafa verið það sem haldið hafi sér á floti, sérstaklega á unglingsárunum.

Anya er 22ja ára, hálf íslensk og hálf bandarísk. Hún fæddist í Boston í Bandaríkjunum en flutti átta mánaða gömul til Fáskrúðsfjarðar.

„Ég hef alltaf haft kærleik og ástríðu fyrir tónlist. Frá barnæsku hafa mér fundist hljóðfæri forvitnileg og mér fannst gaman að sitja og spila. Fjölskylda mín tók eftir því hversu mikið ég naut þess þegar við heimsóttum móðurafa minn og móðurömmu. Þau áttu lítið leikhúspíanó sem ég elskaði að spila á. Það var alltaf leikfangið mitt.

Fljótlega eftir að ég byrjaði í tónlistartímum, urðu þau vör við að ég hefði næm eyru fyrir laglínum. Ég býst við að ástríðan hafi alltaf verið til staðar, en hún hefur bara vaxið með árunum,“ segir Anya þegar hún rifjar upp tónlistarminningar sínar úr barnæsku.

Tónlistin veitti skjól


Fyrir Anyu er það að skrifa eigin texta jafn mikilvægt og að syngja. Á hennar yngri árum veittu skriftirnar skjól frá raunveruleikanum, fluttu hana í þann heim sem hún þráði. „Þegar kemur að lagasmíðum, eru lögin mín í raun eins og dagbókarfærslur um líf mitt. Þau er leið fyrir mig til að tjá mig um ákveðna hluti sem ég hef upplifað og að fá einhvers konar tilfinningalega útrás. Stærsta markmið mitt í tónlistinni er að veita þeim sem hafa farið í gegnum svipaða reynslu, eða eru að ganga í gegnum erfið tímabil, sömu hugarró og ég finn í list minni.

Tónlistin var í raun það sem hélt mér á lífi á ákveðnum tímapunkti í lífi mínu - aðallega á táningsárunum. Þau voru mjög erfið. Ég var mjög þunglynd, kvíðin, lokaði mig oft af frá frá umheiminum og læsti mig inni í tónlistarrými eða svefnherberginu þar sem ég spilaði tímunum saman. Það var það sem veitti mér sannan frið,“ rifjar Anya upp.

Að alast upp á Austfjörðum var áskorun fyrir Anyu, sérstaklega þar sem hún fann oft fyrir því að vera öðruvísi en allir aðrir í litla samfélaginu. „Í fyrstu var ég mjög lokuð, auðvitað, vegna þess að það var allt sem ég þekkti. En ég er ánægð með að hafa alist upp þar, því það fylgir því mikið frelsi að búa í litlu samfélagi, sama hversu erfitt það getur verið. Það getur verið að ég eigi nokkrar vondar minningar en það er allt í fortíðinni og fyrirgefið. Ég tel að reynsla mín hafi gert mig að sterkri ungri konu – að sjálfstæðri manneskju.“

Miklir hæfileikar frá unga aldri


Sem ung stúlka vann Anya nokkrar tónlistarkeppnir fyrir börn, sem sýndu fram á mikla hæfileika hennar. Jafnvel þá voru fullorðnir sem kynntust heimi hennar undrandi yfir fjölda laga sem svo ung manneskja hafði samið. Eftir að hún flutti til Reykjavíkur til að vinna að tónlistarferlinum fjölgaði tækifærunum til að koma fram.

Anya segist ekki vita hvað hefði orðið um sig ef hún hefði áfram búið eystra. Flutningurinn suður hafi bjargað henni og opnað tækifæri til að nýta tónlistarhæfileikana. „Ég er mjög spennt fyrir því að gefa út meiri tónlist, og er að reyna að vinna með fleira fólki sem ég hef ekki unnið með áður gera eitthvað annað en það sem ég er vön. Vegna þess að hingað til hefur það bara verið ég og tölvan mín eða ég og gítarinn minn.

Mynd: Aðsend

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar