Loðnuleit hætt
Umfangsmikilli loðnuleit hafrannsóknaskipa og fiskiskipa er nú lokið án þess að loðnukvóti væri gefinn út. Ekki náðist að mæla þau 400 þúsund tonn sem er miðað við sem grundvöll til útgáfu aflamarks. Þetta er í fyrsta sinn frá veiðitímabilinu 1982/1983 sem ekki hefur verið gefinn út loðnukvóti. Loðnan hefur nú hrygnt og því orðið of seint að veiða hana.
„Þetta eru auðvitað mikil vonbrigði því þetta er ein umfangsmesta skipulagða loðnuleit sem lagt hefur verið í á seinni árum,“ segir Björn Jónsson hjá LÍÚ á vefsíðu sambandsins. Hann stjórnaði leitinni af hálfu útvegsmanna með Hafrannsóknastofnuninni. ,,Það jákvæða er þó að þrátt fyrir að ekki hafi tekist að mæla nema 385 þúsund tonn virðist sem loðnan hafi hrygnt víða. Við höfum fréttir af því að loðnan hafi hrygnt við Vestmannaeyjar, Reykjanes, í Faxaflóa og í Kolluál. Það er vonandi ávísun á góða veiði eftir þrjú ár,” segir Björn.