Lýsir frati í körfuknattleiksdeildina
Fram kemur í Austurglugganum í dag að Björgvin Karl Gunnarsson sem leikið hefur með Hetti í körfuboltanum undanfarin ár segist vera hættur að spila með liðinu. Hann er sár og reiður við stjórn körfuknattleiksdeildarinnar. Björgvin var mótfallinn því að þjálfari síðasta vetrar, Jeff Green, yrði endurráðinn.
“Ég var búinn að segja þeim að ég vildi ekki spila undir hans stjórn. Þeir létu líta út fyrir að hann kæmi ekki aftur og í þeirri trú útvegaði ég tvo nýja leikmenn sem munu spila með liðinu í vetur.” segir Björgvin Karl í Austurglugganum í dag.
“Þeir vissu að með ráðningu Green þá væru þeir að ýta mér frá klúbbnum. Mér hefur einfaldlega verið sparkað í burtu. Ég lýsi frati í stjórnina fyrir að koma svona fram. Ég hef lagt peninga, tíma og vinnu til körfuknattleiksdeildarinnar. Ég var burðarás í liðinu, og á að hafa eitthvað um þetta að segja. Tölfræði mín sem leikmaður undanfarin ár staðfestir það. Kannski hef ég það sterkar skoðanir að þeir vilja mig í burtu.”
Björgvini Karl er greinilega illa við að Green stjórni liðinu. “Mér líkar ekki við þjálfunaraðferðir Green og árangur liðsins undir hans stjórn. Tuttugu manns voru í hóp þegar hann byrjaði að þjálfa í fyrra. Sex manna hópur stóð eftir í lok vetrar. Hann skilaði slakasta árangri Hattar frá því ég kom til liðsins. Ég sagði þeim í stjórninni að ég liti á það þannig að þeir vildu losna við mig frá liðinu. Ég þakkaði pent fyrir mig. “
Björgvin Karl segist vera búinn að leggja skóna á hilluna í bila að minnsta kosti. “Það er erfitt fyrir mig að spila körfubolta á Austurlandi. Höttur er eina körfuboltaliðið hér. Ég er því hættur í bili og samkvæmt þessu er ég ekki lengur leikmaður körfuknattleiksdeildar Hattar.” sagði Björgvin Karl í samtali við Austurgluggann.