![](/images/stories/news/2016/1miriam.jpg)
LungA: Ótrúlegt að upplifa sköpunarkraftinn ár eftir ár
LungA, Listahátíð ungs fólks á Austurlandi, var haldin á Seyðisfirði í síðustu viku. Hátíðin hófst með setningu sunnudaginn 10. júlí og lauk með uppskeruhátíð um liðna helgi.
Björt Sigfinnsdóttir, ein skipuleggjenda Lunga, segir nánast allt hafa gengið að óskum en að úrhellisrigning á föstudag hafi haft áhrif og komið LungA-fólki í opna skjöldu. Hún segir segir ótrúlegt að upplifa sköpunarkraftin á hátíðinni ár eftir ár „Það er frábært að sjá hvað fólk er búið að skapa hérna, það kemur alltaf á óvart að sjá hvað kemur hingað mikið af hæfileikaríku fólki, hvað fæðist mikið af hugmyndum og hvað þær eru útfærðar á skemmtilegan hátt.“
Að þessu sinni voru 7 listasmiðjur starfræktar alla vikuna auk einnar sem aðeins var á föstudegi og voru þáttakendur í smiðjunum alls um 120 talsins. Þar að auki tóku þátt í hátíðinni um 50 sjálfstæðir listamenn með sýningar og tónleika.
Smiðjurnar sem boðið var uppá voru fjölbreyttar og sýningarnar á laugardaginn sömuleiðis. Miriam Mahony frá Danmörku tók þátt listasmiðjunni Óskhyggju undir handleiðslu Hrafnhildar Hólmgeirsdóttur listakonu. Miriam segist lengi hafa viljað koma til Íslands „Ég á marga íslenska vini sem voru alltaf að segja mér hvað Ísland væri fallegt og hvað LungA hátíðin væri frábær svo ég ákvað að skella mér.“ Hún varð ekki fyrir vonbrigðum með hátíðina, „Vikan hefur verið töfrum líkust, við höfum haft mikið frelsi til að gera klikkaða hluti og ég elska nafnið á þessari smiðju, Óskhyggja, það er í rauninni ástæðan fyrir því að ég valdi hana,“ segir Miriam að lokum dreymin.