LungA var ævintýrið sem mótaði manneskju

Björt Sigfinnsdóttir var á táningsaldri á Seyðisfirði þegar hún barði hnefanum í eldhúsborðið á æsku heimilinu og vildi burt af staðnum hið fyrsta. Þar væri ekki nóg fyrir hana að gera og bærinn „skítapleis.“ Móðir hennar, Aðalheiður Borgþórsdóttir, fór heldur óhefðbundna og um leið merkilega leið til að friða dótturina; þær komu sér saman um, að stofna til listaveislunnar LungA. Hún gekk frá árinu 2000 þar til í sumar.

„Ég get auðvitað bara sagt frá minni persónulegu sögu og upplifun því mun fleiri en ég komu að því að skapa LungA í upphafi og þróa hana áfram í öll þessi ár. Það eru því auðvitað margar mismunandi upplifanir og sögur af því hvernig þetta allt hófst.

En frá mínum bæjardyrum séð þá kemst hátíðin á laggirnar út frá ákveðinni þörf. Það var þörf fyrir skapandi vettvang, þörf fyrir að það væri eitthvað meira um að vera fyrir ungt fólk, 16 til 20 ára unglinga, eitthvað tengt listum og menningu.

Staðan á Seyðisfirði á þessum tíma var sú að það var frábært íþróttastarf í gangi og mikil gróska þar en ekki mikið annað. Ég var súper ofvirk á mínum uppvaxtarárum og ég stundaði sannarlega allar þær íþróttir sem hægt var og lærði á næstum öll hljóðfæri sem voru í boði, en ég fann ekki næga útrás fyrir sköpunargleðina sem bjó innra með mér.

Ég vissi af skapandi fólki á Egilstöðum, sem var á fullu í leiklist og listum fleiru andlega spennandi. Þar voru meðal annars Halldóra Malin Pétursdóttir, Stefán Benedikt Vilhelmsson, sem ég leit mikið upp til, sem og þáverandi kærasti minn Ólafur Ágústsson.

Ég horfði mikið til þeirra héðan frá Seyðisfirði og svo gerist það einn daginn í eldhúsinu heima að ég fer að tjá mig um hvað ég sé leið og þreytt á þessu „skítapleisi“ sem mér fannst Seyðisfjörður vera. Ég vildi flytja til Egilsstaða þar sem var eitthvað að gerast. Þannig að ég fór hótaði mömmu að flytja til Egilsstaða en hún tók það ekki alveg í mál og spurði mig hvort við ættum ekki heldur að gera eitthvað í málunum, enda með eindæmum lausnamiðuð kona.“

En á þessum tímapunkti var móðir Bjartar, sem einnig er þekkt sem mamma LungA, tiltölulega nýbyrjuð sem ferða- og menningarfulltrúi á Seyðisfirði.

„Mamma er auðvitað söngkona sjálf og hefur alla tíð verið góð í að skapa vettvang fyrir listafólk styðja við það fólk og er mjög klár í öllu því sem kemur að verkefnastjórnun. Þetta samtal okkar á sér stað síðla árs 1999 minnir mig og mamma þá búin að vera að vinna að því sem kallaðist þá Hljómstefna sem var, ef ég man rétt, helgarviðburður þar sem tónlistarfólki, ungu og öldnu, var stefnt saman og gefinn kostur á að spila og búa til tónlist saman. Og mamma leggur bara til að teygja á því verkefni og búa til heila listahátíð.“

Annað úrval af hátíðum í dag


Eftir gerjun yfir veturinn var fyrsta hátíðin haldið sumarið 2000 og stóð þá eina helgi. Hún vatt svo upp á sig og lengdist. Björt rifjar til dæmis upp að sumarið 2007 hafi selst upp á námskeiðin á klukkustund. Hún bendir líka á að síðan hafi bæjarhátíðum og námskeiðum víða um land fjölgað rækilega. „Þegar að við lögðum af stað í þetta ferðalag voru nánast engar listahátíðir á Íslandi nema Listahátíð Reykjavíkur og lítið um listnámskeið nema kannski í Kramhúsinu. Úrvalið var semsagt nánast ekki neitt, hvað þá úti á landi. En það voru sveitaböll um nánast hverja helgi,“ segir Björt og hlær.

Hún segir að þegar leið að hátíðinni í vor hafi myndast samhljómur meðal aðstandenda um að láta staðar numið. „Það voru allir sammála um að segja þetta gott. Það er alls ekki auðvelt að standa í þessu ár eftir ár og gríðarlega margir sólarhringar í sjálfboðavinnu sem fara í að halda svona hátíð. Stór hluti undirbúningsins er að sækja um alls kyns styrki og fá peninga og bara það ferli tekur á.

En stór þáttur líka er að 25 ár er, í þessu samhengi, langur tími. Ég sjálf hef til dæmis aðeins einu sinni á lífsleiðinni ekki verið á Seyðisfirði að sumarlagi og sumarfrí voru fjarlægur draumur þessi ár vegna anna við hátíðina.“

Lengri útgáfa birtist í Austurglugganum. Hægt er að panta áskrift hér.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar