![](/images/stories/news/2016/Málverkauppboð_í_Löngubúð.jpg)
Má bjóða þér að bjóða í málverk?
„Það er annað hvort að flytja þetta allt suður eða bjóða fólki að kaupa falleg málverk,“ segir Rán Freysdóttir, arkitekt og rekstraraðili Löngubúðar á Djúpavogi, en sumaropnun hennar lýkur á fimmtudaginn.
Það eru verk listakonunnar Kristínar E. Guðjónsdóttur sem hafa prýtt veggi Löngubúðar sumar undir nafninu Með mínum augum III. Er þetta þriðja einkasýning Kristínar á hálfu ári en mörg verka hennar eru máluð á Djúpavogi sumarið 2013 þegar hún var við störf hjá Djúpavogshreppi. Tengsl Kristínar við hreppin eru mikil því dóttir hennar og fjölskylda búa á Karlsstöðum í Berufirði.
Ferðamannatímabilið að lengjast
„Það hefur gengið mjög vel í sumar, bæði með Löngubúð og sýninguna, við höfum selt myndir og sett aðrar upp í staðinn. Síðasti dagur sumaropnunar er á fimmtudaginn, en það er ekkert hundrað í hættunni, það má alveg næla sér í málverk eftir það,“ segir Rán, en almenningi verður boðið að bjóða í verk Kristínar.
Rán segir ferðamannastrauminn hafa verið mikinn í sumar. „Ég sé kannski ekki endilega aukningu í júní, júlí og ágúst, það hefur alltaf verið brjálað en aðal munurinn er að við tökum eftir lengingu tímabilsins, það byrjar fyrr og stendur enn.
Fylgjast má með viðburðinum hér.