„Maður fer einhvernvegin inn í beinagrindina á lögunum"
Mikið verður um að vera um helgina í menningarlífinu á Seyðisfirði. Benni Hemm Hemm verður með sóló tónleika á morgun, laugardaginn 18. janúar í Herðubreið og svo opnar prentverkasýning í Skaftfelli í kvöld.
„Ég hef verið að vinna við að gera tónlist við leikrit sem heitir Skarfur og verður frumsýnt hérna í Herðubreið á næstunni. Svo þegar við vorum að plana næstu ferð þá kom upp hugmynd að halda tónleika hérna,“ segir tónlistarmaðurinn Benedikt Hermann betur þekktur sem Benni Hemm Hemm.
Hann er að fara gefa út nýja plötu 31. janúar næstkomandi og því full af nýjum lögum í farteskinu. segist þó ekki ætla einungis að spila ný lög.
„Þetta verður meira bland í poka. Blanda af eldra og nýrra efni. Ég verð bara einn á sviðinu með gítarinn minn en það eru venjulega 10 manns í hljómsveitinni þannig að öll lögin á plötunni henta kannski ekki fyrir einn gítar,“ útskýrir Benedikt.
Hann bætir við að sum lögin reiða sig á stóra hljómsveit á meðan önnur lög virka alveg með einn gítar. „Þegar maður er einn og spilar lögin á gítarinn einan fer maður fer einhvernvegin inn í beinagrindina á lögunum,“ segir hann.
Tónleikarnir hefjast kl. 20:30 í Herðubreið.
Prentvinnustofa Listaháskóla Íslands
Í lista galleríinu Skaftfelli verður svo sýning á afrakstri vinnusmiðju sem var haldin á vegum Listaháskóla Íslands.
Sýningin opnar kl. 20:00 í kvöld.
Tónlistarmaðurinn Benni Hemm Hemm. Mynd úr safni.