![](/images/stories/news/2016/bræðsluundirb.jpg)
Magni Ásgeirs: Komið í æfingu að breyta gamalli síldarbræðslu í tónleikahús
Allt er óðum að verða tilbúið fyrir tónlistarhátíðina Bræðsluna sem fram fer á Borgarfirði um helgina og segir Magni Ásgeirsson, bræðslustjóri, góðan og samhentan hóp koma að uppsetningu hátíðarinnar.Bræðslan verður haldin í tólfta skiptið nú um helgina og segir Magni það vera komið uppí góða æfingu að breyta gömlu síldarbræðslunni í tónleikahús. „Við þurfum alltaf að gera það sama á hverju ári en þetta tekur orðið enga stund, við vorum alveg tvo heila daga að þessu hérna fyrst,“ segir Magni og heldur áfram, „þetta er líka orðið svo rosalega snyrtilegt í seinni tíð, við þurftum bara að færa út fjóra báta núna og byggja sviðið auðvitað.“
Sviðið er árlega byggt upp í miðri bræðslunni, aðallega úr fiskikörum og pallettum. „Við settum upp sviðið á mánudaginn, erum með góðan hóp vaskra drengja á óræðum þrítugsaldri í því. Þeir fá svo jafnvel miða á Bræðslu að launum ef þeir standa sig vel. Það er komin góð hefð á þetta allt saman,“ segir Magni. „Við erum líka búin að vera svo mikið með sama fólkið í þessu frá upphafi, sömu hljóðmenn og ljósamenn og svona, þannig að við erum orðin eins og fjölskylda, Bræðslu fjölskyldan.“
Magni segir stemminguna í firðinum góða. „Það er löngu uppselt á Bræðslu og mér skilst að það sé líka að verða uppselt á tónleika í Fjarðarborg. Veðrið er búið að vera frábært síðustu daga og á náttúrulega bara eftir að batna. Það er einhver ró hérna yfir öllu finnst mér og ótrúlega lítið stress.“ Segir Magni að lokum.