Málaði veggmynd í snjóbyl og rigningu í sumar

Elín Elísabet Einarsdóttir, teiknari, lauk í dag við veggmynd utan á Búðinni á Borgarfirði. 

Myndin hefur verið í vinnslu í sumar en veðrið hefur ekki leikið við Elínu þegar hún hefur komið austur að mála. „Ég kom hérna í lok maí, til að byrja á þessu. Þá var ótrúlega kalt, það voru svona 2-6 gráður allan tímann, nær 2 gráðum yfirleitt. Stundum þurfti ég að hætta að mála af því að það kom snjóbylur. Ég þurfti alltaf að vera að fara inn að hlýja mér á kaffibollanum. Þá kom ég aftur í júlí þegar var versta rigningarspá sem ég hef séð í marga, marga daga, þannig að Markús kærstinn minn hjálpaði mér að byggja svona plasthöll yfir stillansinn til þess að mála inn í, það gekk framar vonum og svo fékk ég lánaðan hitablásara svo það var bara fínt veður inni hjá mér. Ég kom svo aftur núna í lok ágúst en þá var svona tveggja daga vinna eftir. 

Elín Elísabet segir að verkið hafi tekið aðeins lengri tíma í vinnslu en hún reiknaði með í upphafi. „Þetta eru búnar að vera svona tvær til þrjár vikur af vinnu, veðrið flýtti ekki fyrir en Borgfirðingar eru búnir að vera mjög hjálpsamir og hafa lánað mér ýmislegt sem ég hef þurft á að halda. Þetta er í rauninni búið að vera hálfgert samfélagsverkefni og ég er mjög þakklát fyrir alla hjálpina. Fólk á Borgarfirði er alltaf tilbúið að redda hlutunum.“

Elín segist ekki hafa málað svona stóra mynd áður. „Þetta er stærsta myndin mín hingað til, hún er 35 fermetrar held ég. Ég gerði aðra stóra í Reykjavík í sumar en hún er allavega 5 fermetrum minni. Þetta var allavega ekki að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur, það er alveg smá ruglað hvað er mikið af smáatriðum í myndinni.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar