Málþing um stöðu hinsegin ungmenna á landsbyggðinni

Fundur verður haldinn á morgun í Egilsstaðaskóla á vegum verkefnisins Hinsegin lífsgæði um lýðheilsu hinsegin ungmenna á landsbyggðinni. Fundurinn er einkum ætlaður kennurum og öðrum áhugasömu starfsfólki skóla sem vill auka þekkingu sína á málefninu.

Fundurinn hefur yfirskriftina „að tilheyra“ og þar verður meðal annars spurt hvernig byggja megi upp öruggara skólaumhverfi fyrir hinsegin ungmenni á landsbyggðinni, hvernig hægt sé að vinna gegn jaðarsetningu og auka inngildinu hinsegin nemenda og hvernig hægt sé að bæta stuðning við bæði hinsegin nemendur og fjölskyldur þeirra í dreifbýli.

Meðal þeirra sem tala á fundinum eru Ugla Stefanía Kristjönudóttir Jónsdóttir, sem er með erindi sem kallast „hinsegin í sveitinni“, Dr. Bergljót Þrastardóttir, lektur við Háskólann á Akureyri, um hinsegin veruleika í skólum á landsbyggðinni, og Yuna Suzanne Janne Caro, kennari og umsjónamaður hinsegin stuðningshóps - European School Brussel, Uccl um mikilvægi LGBT stuðningshóps.

Bergljót segir frá niðurstöðum eldri skólakannana og nýlegra kannana um málefni hinsegin nemenda í Fjarðabyggð og þremur öðrum sveitarfélögum á landinu. Ugla er á móti alin upp í Austur-Húnavatnssýslu en fór síðan í framhaldsskóla á Akureyri og kom þar út úr skápnum. Ugla hefur í mörg ár talað máli transfólks á Íslandi.

Þá ræðir Davíð Samúelsson verkefnastjóri Hinsegin lífsgæða frá tilurð verkefnisins. Davíð þekkir vel til á landsbyggðinni en hann er fæddur og uppalinn í Neskaupstað.

Verkefnið stendur nú fyrir fundaferð um landið en í síðustu viku var sambærilegur fundur haldinn á Akureyri.

Fundurinn verður í fyrirlestrasal Egilsstaðaskóla og hefst klukkan 13:00.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar