Málþing, handverkssýning, tónleikar og „Komdu í sund“

Skaftfell á Seyðisfirði heldur málþingið Verkfæri til sjálfsbjargar á hjara veraldar um helgina, en það fjallar um samspil myndlistar og vistfræði í tengslum við verkefnið Frontiers in Retreat.



Boðið verður upp á fyrirlestra sem tengjast náttúru, jarðfræði og mannlífi, snertifleti myndlistar og vistfræði, umhverfismál og meðvitaðan lífsstíl, umbætur á innviðum samfélagsins og aukin lífsgæði. Fjölmargir fyrirlesarar flytja erindi.


„Við erum mjög spennt og teljum að þetta verði mjög áhugavert fyrir alla og við hvetjum alla til þess að renna við hjá okkur og hlusta á skemmtileg og fræðandi erindi,“ segir Hanna Christel Sigurkarlsdóttir, fræðslufulltrúi í Skaftfelli.

Málþingið hefst í Herðubreið í dag klukkan 13:00, en nánar má lesa um viðburðinn hér.

 

Ýmislegt fleira skemmtilegt verður um að vera um helgina.

Lúðvíksvaka verður haldin í Egilsbúð í Neskaupstað á sunnudaginn, en þar verður fjallað um líf og störf Lúðvíks Jósepssonar, fyrrverandi alþingsmanns og ráðherra. Helstu fyrirlestarar eru Svavar Gestsson, fyrrverandi alþingismaður og ráðherra, Helgi Seljan, fyrrverandi alþingismaður, Ellert B. Schram fyrrverandi alþingismaður, Guðni Th. Jóhannesson, sagnfræðingur og Elín Steinarsdóttir, sonardóttir Lúðvíks. Vakan hefst klukkan 15:00 og aðgangur er ókeypis.

„Komdu í sund“ er viðburður sem Heilsueflingarnefnd Alcoa Fjarðaáls í samstarfi við Fjarðabyggð, Fljótsdalshérað og Seyðisfjarðarkaupstað hefur boðað til á morgun laugardag. Um er að ræða skemmtilegra keppni milli sundlaugargesta í sundlaugunum í Neskaupstað, á Eskifirði, Fáskrúðsfirði, Egilsstöðum og Seyðisfirði til styrktar hjúkrunarheimilinum. Frítt í sund milli klukkan 13:00 og 16:00, en nánar má lesa um viðburðinn hér.

Handverkssýning verður haldin í Hlymsdölum á Egilsstöðum um helgina þar sem sýnd verður handavinna eldri borgara sem og annarra. Opið verður milli 14:00 og 18:00 bæði laugardag og sunnudag.

Hljómsveitin Austurland að glettingi heldur tónleika í Valaskjálf annað kvöld þar sem þeir taka ofan fyrir tónlist U2 eins og þeim einum er lagið. Þetta eru aðrir tónleikar sveitarinnar en hinir heppnuðust afskaplega vel svo að enginn ætti að láta þessa fram hjá sér fara. Nánar má lesa um viðburðinn hér.

 

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar