Matur meira áberandi á Jólakettinum en áður
Tæplega 70 aðilar munu bjóða vörur til sölu á jólamarkaðinum Jólakettinum sem haldinn verður að Valgerðarstöðum ofan Fellabæjar á morgun. Þótt framboðið sé fjölbreytt er jólatrjáasalan alltaf þungamiðjan.„Þetta hefur gengið vel. Rúmur helmingur söluaðila er búinn að setja upp sín borð, tjaldið milli húsa er komið og það er allt á tíma þannig við erum að fara heim en mætum svo aftur hálf níu í fyrramálið,“ segir Bergrún Arna Þorsteinsdóttir, starfsmaður Skógræktarinnar á Hallormsstað.
Markaðurinn er haldinn af Skógræktinni og Félagi skógarbænda á Austurlandi sem selja jólatré og bjóða upp á ketilkaffi á markaðinum. Skógarbændur undirbjuggu sig fyrir söluna með að fara á námskeið hjá Þór Þorfinnssyni, skógarverði á Hallormsstað, í byrjun mánaðarins í því hvernig velja skyldi jólatré. Óveðrið í vikunni setti þó strik í reikninginn þannig að brösuglega gekk að ná í trén.
Jólamarkaðurinn er sá stærsti á Austurlandi. Markaðurinn í ár er álíka stór og síðustu ár en um 70 aðilar verða með sölubása. Bergrún Arna segir fjölbreytni ráða ríkjum en þó hafi aldrei verið eins mikil matvara á boðstólunum í ár. Flestir seljendur eru af Austurlandi en nokkrir koma utan fjórðungs.
Um 3000 gestir hafa sótt markaðinn síðustu ár og búist er við margmenni enda veðurspáin hagstæð. Bergrún segir svæðið á Valgerðarstöðum einn helsta styrkleika markaðarins. „Húsnæðið nær yfir 1000 fermetra, hér er nóg af bílastæðum þannig að það er aðstaða til að taka á móti gestum. Síðan eru vörurnar eru fjölbreyttar.
Gestir koma til að upplifa jólastemminguna, fá sér ketilkaffi, velja sér jólatré og sækja sér í jólamatinn.“
Á markaðinum er þó ekki bara sala. Bæjarfulltrúar á Fljótsdalshéraði eru til viðtals og þá mun Hitaveita Egilsstaða og Fella afhenda íbúum trekt til að safna lífrænni fitu og olíu sem til fellur á heimilum, en hitaveitan fagnar í dag 40 ára afmæli sínu.
Jólamarkaðurinn opnar klukkan 11:00 og lokar klukkan 16: 00.