„Mér datt ekkert annað í hug“

Hreinn Guðvarðarson, sem lengi var bóndi á Arnhólsstöðum í Skriðdal en býr nú á Sauðarkróki, hefur um árabil lagt fyrir sig vísnagerð. Hann hefur nú sent frá sér sína fyrstu bók sem hann nefnir Sýndaralvara og hefur að geyma vísur sem orðið hafa til á ýmsum tímum og af ýmsu tilefni.

„Ég var þrítugur þegar ég flutti austur, var þrjátíu ár fyrir austan og svo er ég að hugsa um hvað ég geri á Króknum þegar ég verð búinn að vera þrjátíu ár þar, það er orðið stutt þangað til,“ segir Hreinn kíminn. Hann segir að bókin hafi orðið til þegar hann óvænt hafði tíma til þess. „Það var nú eiginlega bara af því að ég vann alltaf í Loðskinni. Svo fór það á hausinn í haust og ég varð eitthvað að gera. Mér datt ekkert annað í hug.“

Bragsnillingar kveiktu áhugann

Hreinn kveðst hafa verið að semja lengi og að allt hafi það byrjað út frá útvarpsþáttum sem hann hlustaði á sem ungur maður. „Við byrjuðum systkinin að botna þegar bragsnillingaþátturinn hans Sveins Ásgeirssonar var forðum daga. En það gekk nú oft ansi brösuglega.“ Þáttur þessi var á dagskrá Ríkisútvarpsins á sjötta áratugnum og nefndist Já eða nei. Þar spreyttu nokkrir landsfrægir hagyrðingar, Guðmundur Sigurðsson, Helgi Sæmundsson, Karl Ísfeld og Steinn Steinarr, sig á að botna fyrriparta sem hlustendur sendu inn. Þarna kviknaði áhuginn hjá Hreini sem haldið hefur áfram að yrkja æ síðan.

Verður að vera húmor

Hreinn segir að oft hafi fréttir og pólitíkin gefið honum tilefni til að yrkja en að það þurfi helst að vera húmor í því. Nafn bókarinnar ber enda keim af þessu. „Þetta er allt orðið sýndar- eitthvað nú til dags, sýndarveruleiki og af hverju þá ekki sýndaralvara? Björn Björnsson sem ritar formálann segir einhversstaðar að það verði ekki alltaf greind alvaran frá gríninu eða grínið frá alvörunni og mér finnst það bara gott ef maður nær að hafa það þannig.“ Megnið af efni bókarinnar eru ferskeytlur en svo er líka nokkuð af limrum. „Það var nú ekki snemma sem ég lærði að búa til limru en það er ansi gaman að koma ýmsu fyrir í því formi.“

Ekki gróðafyrirtæki

Hreinn gefur bókina sjálfur út og selur hana með aðstoð fjölskyldumeðlima. „Það eru aðallega dætur mínar fyrir sunnan sem eru að selja þar, ég er með bækur sjálfur og svo er Pétur bróðir minn með bækur á Egilsstöðum. Ég var svona að ímynda mér að ég næði að hafa fyrir kostnaði. Tilgangurinn var nú ekki annar.“

Aðspurður hvort hann telji vísnahefðina eiga framtíð fyrir sér kveðst hann halda það. „Það vona ég. Að vísu hefur ljóðagerðin nú breyst dálítið en ég hugsa að tækifærisvísur séu kannski á uppleið aftur, það mætti segja mér það.“

 

Þá lífið mér stöðugt strunsar hjá
og stríðir allavega.
Reyndu að koma auga á
allt það skemmtilega.

HG


Myndatexti: Hreinn Guðvarðarson með bók sína, Sýndaralvara. Mynd: Feykir/PF

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar