„Mér fannst hugmyndin bara svo yndisleg“

Tónleikarnir Rock the Boat verða haldnir í gamla bátnum í hjarta Breiðdalsvíkur á sjálfan þjóðhátíðadaginn næstkomandi föstudag.

Það er Kvenfélagið Hlíf á Breiðdalsvík í samstarfi við Sköpunarmiðstöðina á Stöðvarfirði sem stendur fyrir tónleikunum, en þar koma fram þeir Teitur Magnússon og Prins Póló fram ásamt hljómsveit.

„Hugmyndin kom frá Vinny Vamos, tónlistarsérfræðingi á Stöðvarfirði, en þegar hann kom fyrst hingað á Breiðdalsvík sagði hann mér að hann langaði að spila í bátnum. Mér þótti hugmyndin svo yndisleg að ég ákvað að leggja mitt að mörkum til að gera hana að veruleika,“ segir Christa M. Feucht, formaður Kvenfélagsins Hlífar og verkefnastjóri Breiðdalsseturs.

Christa kynnti hugmyndina fyrir samstarfskonum sínum í félaginu sem leist vel á hana og sóttu þær um styrk í verkefnið Brothættar byggðir sem þær fengu, auk þess sem kvenfélagið sjálft og Lionsfélagið á staðnum lagði til fjármagn.

„Það eru allir spenntir og ég vona að þetta verði árlegur viðburður. Það var hálfgerð tilviljun að þessi dagsetning yrði fyrir valinu og erum ekkert endilega að miða við hana hér eftir. Við vonum bara að veðurguðirnir verði okkur hagstæðir, ef ekki þá flytjum við tónleikana inn í salinn í Frystihúsinu. Við vonum það besta, en auðvitað er það lykilatriði að halda þá úti á bátnum, um það snýst hugmyndin,“ segir Christa.

Teitur Magnússon sló rækilega í gegn með fyrstu sólóplötunni sinni „Tuttugu og sjö“ og var tilnefndur til tónlistarverðlauna Norðurlanda, Phonofile Nordic Music Prize ásamt Björk.

Prins Póló þarf vart að kynna, en á titlilag kvikmyndarinnar París Norðursins og hlaut íslensku tónlistarverðlauninin fyrir plötuna sína „Sorrí“ árið 2014.

Hljómsveitina skila þeir Jón Knútur Ásmundsson á trommur, Vinny Vamos á bassa , Hafþór Máni Valsson á gítar og Halldór Warén á hljómborð.

Ókeypis aðgangur er á tónleikana sem hefjast klukkan 20:00 og allir eru hjartanlega velkomnir. Hér er Facebooksíða tónleikanna.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar