„Mér þykir ásatrúin áhugaverð og spennandi“

„Bekkjarfélagar mínir voru ekkert að pæla mikið í þessu. Ég er öðruvísi og þeir eru vanir því, ég haf alltaf farið mínar eigin leiðir,” segir Snjólfur Björgvinsson á Reyðarfirði, en hann mun gangast undir siðfestuathöfn á vegum Ásatrúarfélagsins um verslunarmannahelgina.

Snjólfur lauk áttunda bekk við Grunnskóla Reyðarfjarðar í vor. „Mamma las mikið af gömlum íslenskum sögum og goðafræði þegar ég var lítill og ég alveg drakk það í mig. Þegar ég varð aðeins eldri fór ég að fá goðheimateiknimyndasögur og var rosalega hrifinn af þeim. Mér þykir ásatrúin áhugaverð og spennandi, auk þess sem ég er alltaf tilbúinn til þess að prófa eitthvað nýtt.

Ég er rosalega óákveðinn að eðlisfari og lengi að taka allar ákvarðanir. Ég fór því að pæla í þessum málum ári áður en ég þurfti að taka ákvörðun. Í fyrsta lagi fannst mér ég þurfa að taka ákvörðun um hvort mig langaði að fermast eða ekki og þá hvort ég vildi gera það í kristinni trú eða ásatrú. Ég hugsa alla hluti svo langt út fyrir efnið og þess vegna er ég svona lengi að ákveða mig. Mér finnst þetta stórt skref og partur af því að verða fullorðinn; þá annað hvort að staðfesta þá trú sem foreldrar þínir skírðu þig inní eða að taka nýja. Svo er auðvitað alltaf hægt að skipta um trúfélag, það gerir maður bara á netinu,“ segir Snjólfur.


Trúarskoðanir fjölskyldunnar höfðu engin áhrif
Það var í kringum áramót sem Snjólfur segist hafa tekið ákvörðun um að gangast undir siðfestuathöfn hjá Ásatrúarfélaginu. Fjölskyldan hafði samband við Baldur Pálsson Freysgoða sem fer með Austurlandsgoðorðið.

„Við höfðum samband við Baldur og ég hitti hann einu sinni áður en ég tók ákvörðun. Síðan þá höfum við hist nokkrum sinnnum og nú er loks að koma að athöfninni sjálfri,” segir Snjólfur en siðfræðsla eru valkostur fyrir ungmenni sem og fullorðna sem vilja dýpka skilning sinn á heiðnum sið. Í henni er farið yfir megininntakið í ásatrú, sem er ábyrgð einstaklingsins á sjálfum sér, heiðarleiki, umburðarlyndi gagnvart trú og lífsskoðunum annarra og virðing fyrir náttúrunni og öllu lífi. Undirbúningi lýkur með því að ungmennið eða hinn fullorðni les og hugleiðir sérstaklega Hávamál. Að fræðslu lokinni fer fram svokölluð siðfestuathöfn með hefðbundnu blóti.

Trúarskoðanir fjölskyldunnar eru af ýmsum toga. „Tvær systur mínar hafa skráð sig úr Þjóðkirkjunni, sem og pabbi sem er nú í Ásatrúarfélaginu, en ég er ekki alveg viss hvar mamma stendur í þessu. Ekkert af þessu hafði áhrif á mína ákvörðun, ég tók hana alfarið sjálfur.“


Sat einnig fermingarfræðslu í vetur
Þrátt fyrir ákvörðun sína sat Snjólfur einnig fermingarfræðslu með bekkjarfélögum sínum í vetur. Af hverju gerir hann það og hver þykir honum helsti munurinn þarna á milli?

„Ég ákvað að vera í fermingarfræðslunni og mun taka prófið með krökkunum til þess að eiga möguleika á því að færa mig yfir ef til þess kemur, auk þess sem ég hef ekkert betra að gera. Í kristinni trú tilbiðja allir einn guð en fleiri goð í ásatrúnni. Ef þú deyrð í bardaga samkvæmt ásatrú ferðu til Valhallar, annars til heljar. Samkvæmt kristinni trú ferðu til himna ef þú hefur gert góða hluti í lífinu en til heljar hafir þú það ekki. Í ásatrú er móðir náttúra miðja alheimsins, þú verður að bera virðingu fyrir umhverfi þínu, sjálfum þér og öðrum, í rauninni er bara verið að segja: Vertu góð manneskja. Fræðslan snýst líka mikið um Hávamálin og kannski á eftir að fara í forn rit, ég bara veit ekki hvað gerist í framhaldinu. Í fermingarfræðslunni er einnig komið inn á einelti og slíkt, þannig að í grunninn er þetta tvennt ekkert svo ólíkt.

Ég hef fræðst heilmikið um ásatrúnna eftir að ég tók ákvörðunina, bæði hef ég lesið mikið efni á netinu og er núna að fara í gegnum Hávamál, en ég er bæði með upprunalegu útgáfuna sem og þá sem Þórarinn Eldjárn gerði og er aðeins skiljanlegri. Mér þykir þetta mjög áhugavert og úr Hávamálum er til dæmis málshátturinn; margur verður að aurum api. Það vissi ég ekki áður.“

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar