Mikil ánægja með breytingar á Cafe Cozy á Reyðarfirði
Gestum bæði í mat og drykk hefur fjölgað töluvert á Cafe Cozy á Reyðarfirði síðustu vikurnar en ýmsar breytingar hafa þar orðið á rekstrinum og þeim breytingum fjarri því lokið.
Um tíma hefur ekki verið óalgengt að heyra heimafólk kvarta yfir takmörkuðu úrvali þegar kemur að því að fá sér matarbita eða gera sér glaðan dag á matsölustað en sú afstaða breyst til batnaðar með vorinu þegar Cafe Cozy breytti og bætti matseðil sinn og opnunartíma. Staðurinn hóf þá að bjóða upp á tælenska rétti og skömmu síðar pizzur auk þess að lengja opnunartímann um helgar töluvert fram á nótt.
Að sögn Paulo Masfre sem auk annarra sjá um staðinn fyrir hönd eigendanna hefur breyttur matseðill fallið vel í kramið og gestafjöldi aukist jafnt og þétt síðustu vikurnar. Ekki síður er ánægja með næturklúbbsstemmninguna um helgar fyrir þá sem vilja lyfta sér aðeins upp án þess að fara langar leiðir.
Fleiri breytingar eru í farvatninu sem viðskiptavinir ættu að verða varir við á næstu tveimur til þremur vikum.
„Við erum að vinna að því að koma efri hæð hússins í stand til að verða að svona nokkurs konar sportbar með sjónvörpum og beinum útsendingum auk leikja og góðrar þjónustu. Eftir það verður neðri hæðin eingöngu veitingastaður. Þessu ætti að ljúka á næstu tveimur til þremur vikunum og vonandi sjá enn fleiri heimamenn og gestir ástæðu til að heimsækja okkur.“