Mikil hvatning fyrir Sinfóníuhljómsveitina að fá frábærar viðtökur
Húsfyllir var á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Austurlands í Tónlistarmiðstöðinni á Eskifirði á sunnudag þar sem sveitin flutti nokkur af helstu perlum kvikmyndatónlistarsögunnar.„Þetta lukkaðist frábærlega. Það var fullt hús, 220 manns og mikið fjör þar sem áhorfendur risu úr sætum í lokin með mikil fagnaðarlæti,“ segir Sóley Þrastardóttir, einn meðlima sveitarinnar. „Það er mjög mikils virði að fá svona viðtökur og rosalega hvetjandi.“
Hljómsveitin flutti á sunnudag nokkur þekkt stef úr kvikmyndaheiminum, meðal annars verk eftir John Williams sem samdi tónlistina við Stjörnustríðsmyndirnar og Ennio Morricone sem er þekktur fyrir stefn sín úr spaghettívestrunum.
Hljóðfæraleikarnir voru 45 talsins og fengu Austfirðingar liðsstyrk frá Norðurlandi og úr Reykjavík við flutninginn. Undirbúningurinn hefur því verið ærið púsluspil. „Við erum vissulega dálítið þreytt og vinnum fyrir spennufalli.“
Frekari tónleikar eru ekki komnir á dagskrá sveitarinnar á þessu ári. Byrjað er að huga að tónleikum næsta árs þar sem stefnt er að flytja tónverk eftir Charles Ross, sem í áratugi hefur kennt tónlist á Austurlandi.
Mynd: Menningarstofa Fjarðabyggðar