Mikil leynd yfir hundraðasta blóti Reyðfirðinga

Þorrablót Reyðfirðinga verður haldið í 100. sinn í kvöld. Mikil eftirvænting er fyrir blótinu sem jafnframt er fyrsti viðburðurinn í nýju íþróttahúsi staðarins en að sama skapi ríkir talsverð leynd yfir bæði skemmtiatriðum og útliti salarins.

„Mér finnst bæði vera ofboðslega mikil eftirvænting en líka væntingar, því við erum á leið í nýtt hús og það er spenningur fyrir að sjá aðstæður, hvernig raðað er upp og hverju nefndin tekur upp á,“ segir Aðalheiður Vilbergsdóttir sem leiðir þorrablótsnefndina ásamt manni sínum, Óskari Sigurbergi Jónssyni.

Heimildir eru um að þorrablót hafi fyrst verið haldið á Reyðarfirði árið 1918 og þau síðan aðeins fallið niður vegna seinni heimsstyrjaldarinnar, óveðurs og loks Covid-faraldursins.

„Við sjáum samt í gögnum að þorrablót hafa verið haldin við ýmsar aðstæður. Þótt það hafi verið óveður og ófært, þannig að fólkið úr sveitunum komst ekki á blótið, var það samt haldið,“ segir Aðalheiður.

Síðasta nefnd ríkti í tvö ár, gerði fyrst rafræna skemmtidagskrá en lauk síðan störfum með samkomu á Góu. Hvorugt er talið með í tölunni 100. „Samkoman í fyrra var ekki á þorra heldur seint í mars auk þess sem þar var ekki þorrablót. Það eru því allar forsendur fyrir að kalla það ekki þorrablót. Við segjum að nefndin hafi verið sniðug að koma 100. blótinu í nýtt húsnæði,“ segir Aðalheiður.

Varnir gegn forvitnum

Blótið var fyrst haldið í gamla barnaskólanum, síðan félagsheimilinu Félagslundi og loks íþróttahúsinu en flyst nú yfir í nýja húsið. Stefnt er að það verði tekið í gagnið fyrir íþróttir á næstu vikum en eftir er að ganga frá línum á gólf og fleira.

Nýja húsið bætir því enn á eftirvæntinguna en nefndin og starfsfólk íþróttahússins hafa lagt mikið á sig til að ekkert spyrjist út. „Það hefur alltaf ríkt ákveðin leynd um þorrablótið á Reyðarfirði. Það má enginn sjá þemað fyrir það eða inn í salinn. Þess í stað reyna margir að lesa út þemað frá miðunum.

Við fáum hingað inn tæknifólk utan að og starfsfólk bæjarins til að aðstoða okkur. Það má ekki taka myndir og alls ekki birta þær,“ segir Aðalheiður.

„Við höfum bent fólki á að koma ekki of langt inn í húsið. Það er lokað á milli íþróttahúsanna, ég reikna með að starfsfólkið í afgreiðslunni hafi þurft að beina einhverjum frá. Við höfum birgt gluggana hér,“ bætir Óskar við.

Um 400 manns höfðu keypt miða á blótið í gær. Er það heldur fleiri en síðustu ár enda um mun stærri sal að ræða.

Demo

Markmið Austurfréttar er að byggja upp vef sem tengir saman Austfirðinga, sama hvar þeir eru niðurkomnir og flytja fréttir úr þeirra samfélagi.

Samfélagsmiðlar

Þessi síða notar vafrakökur (e. cookies) til þess að upplifun þín af henni sé sem best og til þess að hjálpa okkur að veita þér sem besta þjónustu.